Þýsku lúxusbílaframleiðendurnir, Mercedes Benz, Audi og BMW eru í mikilli sókn.  Uppgjör félaganna vegna fyrstu sex mánaða ársins sýna mikla söluaukningu milli ára.  Mest er aukningin hjá Mercedes Benz eða 27% á seldum bílum (e. unit sales).  Forsvarsmenn fyrirtækjanna eru bjartsýnir fyrir árið í heild en sala á stærstu mörkuðum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Kína, skýrir aukninguna.

Mercedes Benz: Hafa aldrei selt fleiri bíla á 2. ársfjórðungi frá stofnun Daimler AG.

Daimler AG, framleiðandi Mercedes Benz, er næst stærsti framleiðandi lúxusbíla í heiminum en höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Stuttgart.   Sérstaka athygli vekur að aldrei hafa selst fleiri bílar á 2. ársfjórðungi frá stofun Daimler AG.  Sala félagsins jókst að jafnaði um 27% en salan hefur aukist um 33% í stærri og dýrari gerðum.

Meginástæðan er söluaukning á stærri markaðssvæðum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Kína þar sem salan hefur tvöfaldast milli ára.  Auk þess hefur framleiðandinn breytt samsetningu vöruframboðs síns.

Hagnaður á 2. ársfjórðungri var 1,3 milljarðar evra í stað 1,062 milljarða evra taps á sama tímabili árið á undan.

Í fyrra seldi félagið 1,6 milljón ökutækja og áætlar að söluaukningin verði umtalsverð í ár.

Audi:  Stjórnendur gera ráð fyrir 13,7% söluaukning milli ára

Frá höfuðstöðvum Audi AG í Ingolstadt barst uppgjör félagsins fyrstu sex mánuði þessa árs.  Söluaukning í fjölda bíla var 19,1% fyrstu sex mánuði ársins.  Hagnaður hækkar milli ára, úr 823 milljónum evra í 1,3 milljarð evra.

Stjórnendur Audi gera ráð fyrir að selja tæplega  1,1 milljón ökutækja árið 2010 í stað 949 þúsund árið 2009.  Það myndi þýða 13,7% söluaukningu milli ára.

BMW: Hagræðing og 13,1% söluaukning fyrstu sex mánuði ársins

BMW AG eða bæversku mótorverksmiðjurnar (d. Bayerische Motoren Werke AG) eru í Munchen.  Sala fyrirtækisins, sem framleiðir einnig Mini og Rolls Royce, jókst fyrstu 6 mánuði ársins um 13,1% en litlu minna á  2. ársfjórðungri eða um 12,5%. Hagnaður félagins fyrir skatta fyrstu 6 mánuði ársins var 1,8 milljarður evra í samanburði við 47 milljón evra tap á sama tíma í fyrra.

BMW seldi 696 þúsund ökutæki  fyrstu 6 mánuði ársins en 615 þúsund á sama tímabili í fyrra.