Þýska Ifo vísitalan sem mælir væntingar þýskra stjórnenda hækkaði óvænt í mars. Vísitalan hækkaði úr 103,4 í 105,4 og er þetta hæsta gildi vísitölunnar í 15 ár.

Höfðu flestir gert ráð fyrir að vísitalan myndi lækka milli mánaða. Hækkunina má einkum rekja til vaxtar í útflutningi sem er aftur á móti til kominn vegna tiltölulega veikrar evru. Samrunar og yfirtökur þýskra fyrirtækja hjálpuðu einnig.

Sambærileg vísitala á Ítalíu hækkaði einnig og er nú í 94,2 sem er hennar hæsta gildi í 5 ár. Hækkanirnar hafa ýtt undir væntigar um að seðlabanki Evrópu hækki stýrivexti sína um 25 punkta í maí.