Ófáir þýskir stjórnmálamenn lýstu því yfir í gær að þeir hygðust skipta Nokia farsímum sínum út fyrir aðra tegund síma í mótmælaskyni við þá ákvörðun finnska símaframleiðandans að flytja verksmiðju sína frá Þýskalandi og til Rúmeníu með þeim afleiðingum að um tvö þúsund manns missa vinnuna.

Nokia segir að launakostnaður í Rúmeníu sé aðeins tíundi hluti þess sem hann er í Þýskalandi, en ýmislegt bendir til þess að bilið þar á milli sé jafnvel enn meira.

Ákvörðun Nokia, sem tilkynnt var um fyrr í vikunni, virðist hafa komið mörgum Þjóðverjum í opna skjöldu, en fyrirtækið hefur oft verið lofað fyrir það að hafa haldið áfram rekstri verksmiðju sinnar í Þýskalandi löngu eftir að aðrir farsímaframleiðendur fluttu starfsemi sína annað.

Peer Steinbrück, fjármálaráðhera Þýskalands, sakaði Nokia um „hjólhýsa kapitalisma“ og landbúnaðarráðherrann Horst Seehofer sagðist ætla að skipta um síma vegna þess að honum líkaði ekki „hvernig þeir færu að þessu.“

Hagfræðingar hafa á hinn bóginn bent á að ákvörðun Nokia sé skiljanleg og hafi ennfremur verið fyrirsjáanleg. „Flestir framleiðendur vefnaðarvöru og raftækja fluttu starfsemi sína frá Þýskalandi til Austur-Evrópu og annað á tíunda áratugnum eða fyrr. Ákvörðun Nokia er fullkomlega skiljanleg,” hefur Financial Times eftir Christian Dreger hjá hagfræðistofnuninni DIW í Berlín.

„Ákvörðunin kemur ekki beint á óvart,“ sagði Christoph Schmidt, yfirmaður hagfræðihugveitunnar RWI í Essen. „Það var aðeins tímaspursmál hvenær kæmi að þessu. Þetta er nauðsynlegt – en sársaukafullt – aðlögunarferli fyrir Þýskaland.“