Verðbólguvæntingar fara vaxandi á evrusvæðinu og gefa ekki til kynna að búast megi við verðstöðugleika til lengri tíma litið.

Þetta kemur fram í nýútkomnu mánaðarriti Þýska sambandsbankans en hann er, sem kunnugt er, áhrifamesti seðlabanki Evrópu og eru markmið og starfsfyrirkomulag Evrópska seðlabankans að miklu leyti mótuð af þeim þýska.

Fram kemur í mánaðarritinu að þrátt fyrir að hagvaxtarhorfurnar á evrusvæðinu hafi dekkst, bendi kannanir og hagtölur til þess að verðbólguvæntingar fari nú vaxandi og bendi þær ekki til þess að verðlag verði stöðugt til lengri tíma.

Ítrekað er að engin trygging sé fyrir því að minnkandi hagvöxtur komi í veg fyrir verðbólguþrýsting eða slái á verðbólguvæntingar. Tekið er fram að minni hagvöxtur stafi ekki eingöngu af minnkandi eftirspurn, og þar af leiðandi er ekki gefið að sá framleiðsluslaki muni minnka sem myndast hefur í hagkerfum evruríkjanna og þar með draga úr verðbólguþrýstingi.

Í mánaðarritinu er ítrekuð nauðsyn þess að peningamálastefnan snúist fyrst og fremst um stöðugt verðlag en nokkur styr hefur staðið um stefnu Evrópska seðlabankans að undanförnu.

Stjórnmálamenn á borð við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta hafa til að mynda krafist þess að forráðamenn bankans taki meira mið af hagvexti við mótun peningamálastefnunnar.

Fram kemur í umfjöllun Þýska sambandsbankans að hækkanir á aðföngum ógni verðstöðugleika á evrusvæðinu til meðallangs tíma og að sama skapi bendi verðbólguvæntingar til þess að hættan geti varað til enn lengri tíma.

Viðvarandi verðbólguáhyggjur

Evrópski seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25% á síðasta vaxtarákvörðunarfundi sínum fyrir ríflega mánuði. Væntingar hafa verið uppi um að forráðamenn bankans lækki vexti vegna samdráttarins á evrusvæðinu – það er meðal annars vegna þess að evran hefur veikst gagnvart Bandaríkjadal – en álit Þýska sambandsbankans bendir eindregið til þess að þungavigtarmenn telji enn meiri ógn stafa af verðbólgu en hægagangi í atvinnulífinu.