Þýskur banki að nafni Hypo Real Estate (HRE) er talinn hafa fallið á álagsprófi Evrópusambandsins en niðurstöður úr álagsprófum sem gerð voru á 91 evrópskum bönkum verða birtar á föstudaginn. Prófið tekur á aðstæðum líkt þeim sem komið hafa upp síðastliðin tvö ár, meðal annars auknum afskriftum vegna efnahagskrísu.

Hypo Real Estate var tekinn yfir af þýska ríkinu árið 2008 þegar efnahagskreppan reið yfir. Fall bankans á álagsprófinu nú gæti þýtt að þýska ríkið þurfi að leggja bankanum til aukið fjármagn. HRE er einn stærsti eigandi skuldabréfa sem útgefin eru af ýmsum löndum evrusvæðisins. Nokkur þeirra hafa átt í miklum erfiðleikum, þar á meðal Grikkland, Portúgal og Spánn.

HRE er í 100% eigu þýska ríkisins eftir að ríkið kom bankanum til bjargar árið 2008. Í frétt Financial Times segir að það komi fjárfestum ekki á óvart að ríkið þurfi mögulega að hjálpa bankanum enn frekar. HRE hefur þegar fengið um 7,8 milljarða evra en talið er að heildarfjárþörf sé um 10 milljarðar evra.

Talið er að þeir bankar sem koma illa út úr álagsprófi ESB næstkomandi föstudag muni þurfa á auknu eigin fé að halda. Þrátt fyrir mikla andstöðu almennings við að ríki Evrópusambandsins aðstoði banka sína enn frekar er talið líklegt að ríkisstjórnir muni veita þá fjármuni sem bankarnir þurfa.

Tilgangur álagsprófa Evrópusambandsins er að reyna að endurvekja traust á evrópska fjármálakerfinu.