*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Erlent 1. janúar 2020 15:31

Á ystu nöf

AGS telur hagvöxt 2019 hafa verið þann minnsta síðan í fjármálakreppunni. Vopnabúr seðlabanka eru víða tóm.

Andrés Magnússon
Fjármálamarkaðir eru streituvaldandi þegar best lætur, en ástandið skánar ekki þegar kreppan liggur í loftinu.
epa

Það er líklegast óhætt að segja að nýliðið ár hafi ekki verið með fengsælasta móti í hagrænu og hnattrænu tilliti. Viðskiptastríð milli stórvelda, veikleikamerki í kínversku efnahagslífi og stöðnun á meginlandi Evrópu hafa öll aukið óvissu og vegið að vexti heimshagkerfisins. Svo mjög raunar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) telur að hagvöxturinn 2019 hafi verið sá dræmasti síðan í fjármálakreppunni.

Það er mjög á mörkunum að hægt sé að segja að heimurinn hafi jafnað sig á fjármálakreppunni sem dundi yfir fyrir rúmum áratug. Sú aðferð, sem flest ríki og seðlabankar heims notuðu til þess að halda henni í skefjum, fólst í því að forða bönkum og fjármálastofnunum frá falli, fyrst og fremst með „magnbundinni linun“ (peningaprentun og kaupum á skuldabréfum banka), svo spilaborgin hryndi nú ekki. Um leið var þess gætt að ekki dræpist á aflvélum atvinnulífsins með því að lækka stýrivexti niður í ekki neitt. Með þessu var hins vegar aðallega verið að lengja í snörunni.

Um þetta hafa sumir tautað um langa hríð, en það hefur hvergi verið pólitískur vilji til þess að tala opinskátt um það að aðgerðirnar hafi aðeins reynst svo og svo vel, hvað þá að þær hafi skapað annan vanda, sennilega verri. Afleiðingin er ekki síst sú að fjárfestar hafa orðið æ áhættusæknari í örvæntingarfullri leit að ávöxtun og það á ekki síður við stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóði. Um það hafa menn þó verið feimnir að tala af ótta við að slík veikleikamerki leiði til þess að hrakspárnar rætist.

Það er raunalegt að viðbrögð við fyrri kreppum hafi gert fjármálakerfi heimsins enn viðkvæmari fyrir næstu kreppu; að þau hafi um margt orðið til þess að gera hana óumflýjanlega og hálfu ógnvænlegri en hina fyrri.

Tóm vopnabúr
Verra er að þær aðgerðir allar hafa gengið svo á vopnabúr seðlabanka um víða veröld, að vel má efast um að þeir geti margir spornað við nýrri kreppu, hvað þá ef hún reynist enn dýpri en hinar fyrri. Seðlabankar í Evrópu eru að þrotum komnir og hið sama má segja um Japansbanka. Talið er að Seðlabanki Bandaríkjanna sé ekki með helminginn af því í pokahorninu, sem vanalega þarf til þess að mæta niðursveiflu. Þá er skammt í að seðlabankarnir þurfi að fást við trúverðugleikavanda, en þá fyrst er voðinn vís.

Aðeins af þeim ástæðum er rétt að efast um að seðlabankar heims eða pólitísk stjórnvöld eigi betri ráð nú en þá. Þó er sjálfsagt ríkari ástæða til þess að óttast að einu gildi hversu góð ráð menn kunni, þeir eigi ekkert eftir í í fyrrnefndum poka til þess að hrinda þeim í framkvæmd. Hinn þróaði heimur er á barmi efnahagskreppu, sem án minnsta vafa mun leiða til félagsólgu, en stjórnvöld eru máttvana. Þá er nú gott að hafa ekki gleymt því að hér varð hrun.

Þess vegna kom á óvart hversu höfundar fjármálastöðugleikaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í október liðnum voru ómyrkir í máli um vandann, en einnig hvað þeir voru loðnir í máli um lausnir. Þar kom fram að nú mæddi meira á fjármálakerfi heimsins en í aðdraganda fjármálakreppunnar 2008, sem Íslendingar urðu svo áþreifanlega fyrir barðinu á með íslenska bankahruninu. AGS notaði ekkert rósamál, heldur sagði að hið alþjóðlega fjármálakerfi væri nú bæði óstöðugra og í raun hættulegra fyrir hagkerfi heimsins.

Ekkert af vandamálum nýliðins árs er leyst eða að baki, öðru nær. Þau kynnu að vaxa enn frekar og það sést móta fyrir ýmsum vanda öðrum.

Skuldir og vanskil
Skuldir heims nú um áramótin námu 255 billjónum Bandaríkjadala (eða trilljónir eins og þeir segja fyrir vestan), sem er enn eitt skuldametið. Orsakir þess má fyrst og fremst rekja til Bandaríkjanna og Kína, en samanlagt eru um 60% skuldaaukningarinnar þar. Minnkandi hagvöxtur um heim allan mun ekki draga úr þeim skuldastabba.

AGS benti á að alþjóðlega fjármálakerfið væri svo samofið og allir með alls kyns pappíra, að litlar þúfur gætu velt þyngstu hlössum. Bankar kunna að vera almennt öruggari en skuldug fyrirtæki, þó ekki í Evrópu eða Kína, en það er alls óvíst að að þeir verði ónæmir frekar en þau ef það fer að reyna á þessa gríðarlegu gírun að einhverju ráði. Sem er einstaklega sennilegt, þó ekki væri nema vegna þess að svo ör skuldsetning er jafnan undanfari efnahagslægðar.

Jafnvel miðlungi mikið áfall myndi setja fyrirtækjaskuldabréf fyrir um 19 billjónir dala í vanskil, þegar arður skuldaranna dugar ekki fyrir vöxtum. Þetta eru um 40% af öllum skuldum atvinnufyrirtækja. Þar á meðal er fjöldinn allur af fyrirtækjum með lánshæfiseinkunnina BBB, skör ofar ruslflokki og því við hæfi stofnanafjárfesta. Við blasir að að þeim þrengist gríðarlega ef hagkerfið hægir á sér eða dregst saman og öll áhættudreifingin mun reynast til lítils.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak hér.