WomenTechIceland og Huawei hafa hrundið af stað viðskiptahraðlinum The Women Innovators Incubator. Að því fram kemur í tilkynningu er markmið hraðalsins er að styðja konur í að ná frekari fótfestu í heimi tækninnar. Hraðallinn rennur sitt skeið í maí og hlýtur sigurvegari hans eina milljón króna.

Markmið viðskiptahraðalsins er að hvetja konur til að viðurkenna og skoða möguleika hugmynda sinna, hvort sem þær búa yfir sérstakri tæknikunnáttu eða ekki. Engin fyrri reynsla af álíka viðskiptahraðli eða nýsköpun er nauðsynleg til að taka þátt í verkefninu. Það eina sem þarf er hugmynd sem gæti haft jákvæð áhrif á samfélagið og áhugi á því að læra hvernig á að nota tækni til að koma hugmynd í framkvæmd.

„Í íslenska nýsköpunarheiminum er áberandi skortur á konum og verkefnum leiddum af konum. Sífellt fleiri konur stunda nám og útskrifast í tölvunarfræði og skyldum greinum, en samt virðast t.d. verkfræði- og tækniteymi hafa mjög fáar ef nokkrar konur. Jafnframt sjáum við að það er í sumum tilvikum enn erfiðara fyrir erlendar konur búsettar á Íslandi að komast inn í geirann, jafnvel þegar þær hafa viðeigandi reynslu. Með þessum viðskiptahraðli og viðburðum tengdum honum viljum við reyna að skilja ástæður þessa alls og sjá hvernig við getum útrýmt hindrunum í þessum geira,“ er haft eftir Valenttina Griffin, meðstofnanda WomenTechIceland.

WomenTechIceland voru stofnuð árið 2017 af fyrrnefndri Griffin og Paulu Gould. Markmið samtakanna var í upphafi að skapa vettvang fyrir allar konur sem tengjast tæknisamfélaginu en hefur þróast í að vera snertipunktur fyrir viðburði, umræðu og tækifæri sem snúa að konum í tækni hér á landi. Hraðallinn nú er hluti af eins árs samstarfi samtakanna og Huawei en því var ýtt úr vör síðasta vor.

„Sem leiðtogi í upplýsingatækni á heimsvísu ber Huawei ábyrgð þegar kemur að því að minnka bilið milli kynjanna í tækniiðnaðinum. Við lítum svo á að alþjóðlegt umfang okkar geri okkur kleift að hafa jákvæð áhrif um allan heim og samstarf okkar við WomenTechIceland og þessi viðskiptahraðall er eitt framtak sem stuðlar að þessu markmiði. Við vitum að það þarf að bæta stöðu kvenna í tæknigeiranum og við þurfum að eiga sterkari samræður um leiðir til að bæta stöðuna,“ er haft eftir Beatriz Garcia Martinez, samskiptastjóra Huawei á Íslandi, í tilkynningunni.