„Í mínum huga er löngu ágreiningslaust að í stjórnarskrá skuli setja ákvæði sem lýsi auðlindir í náttúru Íslands þjóðareign sem beri að nýta á sjálfbæran hátt landsmönnum öllum til hagsbóta,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem hann fjallar um auðlindar og stjórnarskrárákvæði þar um.

Bjarni bendir á að í skýrslu stjórnarskrárnefndar sé lögð áhersla á að í þjóðareignarhugtakinu felist sú meginhugsun að nýting náttúruauðlinda sé í þágu þjóðarinnar allrar. Það sé hins vegar óhjákvæmilega háð pólitískri stefnumörkun hvernig þessu markmiði sé náð á hverjum tíma. Í þessu sambandi sé rétt að hafa í huga að stjórnarskrárnefnd telji brýnt að í stjórnarskrá sé kveðið á um að úthlutun heimilda til nýtingar auðlinda skapi ekki eignarrétt eða óafturkræf réttindi, svipað og gert sé í núgildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf.

„Óraunhæft er, og raunar óæskilegt, að setja ýtarlegar reglur um nýtingu einstakra auðlinda í stjórnarskrá. Það eiga frekar að koma fram meginmarkmið auðlindanýtingar, þ.e. sjálfbær nýting í þágu samfélagsins alls, og tryggingar fyrir því að lýðræðislega kjörin stjórnvöld á hverjum tíma geti unnið að þessum markmiðum,“ skrifar Bjarni. Þá segir hann að samhliða auðlindaákvæði þurfi einnig að huga að setningu almenns ákvæðis um vernd umhverfisins.

Ákvæði um þjóðaratkvæði

Bjarni segir einnig að þróun síðustu ára sýni að mikil þörf sé á almennu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðaratkvæðagreiðslur. Slíkt ákvæði ætti að taka til samþykktra laga og jafnvel ákveðinna þingsályktana Alþingis sem feli í sér bindandi ákvörðun. Hann segir eitt helsta álitaefnið vera hve margar undirskriftir eigi að þurfa til.

„Ég tel að þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli undirskrifta eigi fyrst og fremst að þjóna aðhaldshlutverki gagnvart Alþingi og jafnframt vera einskonar öryggisventill lýðræðisins. Hér þarf því að finna leið til að tryggja slíkan rétt þegar sterk og ótvíræð krafa rís um slíka atkvæðagreiðslu án þess að fulltrúalýðræðinu sé fórnað eða þinginu gert erfitt um vik að bregðast við aðkallandi málum,“ segir Bjarni.