*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 11. ágúst 2019 19:01

Ýtti við tígrishákarli

Riaan Dreyer nýr framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka flýgur til S-Afríku mánaðarlega og strax til baka.

Höskuldur Marselíusarson
Eftir að hafa starfað hjá Meniga og Arion banka hefur hinn suður-afríski Riaan Dreyer tekið við sem framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka.
Haraldur Guðjónsson

Nýr framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka segir traust það mikilvægasta sem bankar bjóði á fjármálamörkuðum sem nú séu að opnast með nýjum tæknilausnum. „Stafrænar lausnir eru vissulega eitt af þessum tískuorðum sem allir tala um núna en nauðsynlegt er að þegar tæknin færir viðskiptavinum okkar aukinn virðisauka þá tryggjum jafnframt að fólk finni fyrir öryggi með það hvernig við nýtum gögnin sem lausnirnar byggja á,“ segir Riaan Dreyer.

„Mitt hlutverk verður meðal annars að finna rétta jafnvægið milli þeirra stafrænu lausna sem bankinn býr til sjálfur og það sem hægt er að fá inn með samstarfi við aðra aðila.“ Riaan flutti til Íslands fyrir þremur og hálfu ári frá heimalandi sínu, Suður-Afríku, en hann hefur starfað víða um heim og segir það hafa komið sér mest á óvart hér á landi hve mikinn tíma menn hafi utan vinnu enda sé frítíminn hér virtur.

„Ég er týpískur ástarflóttamaður til Íslands en ég hitti eiginkonu mína, Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Almannaróms, í námi í IESE viðskiptaskólanum á Spáni. Við erum með hefðbundna samsetta fjölskyldu, stjúpdóttir mín er 19 ára, við eigum bæði 16 ára gamla syni og svo er dóttir mín 13 ára. Ég flýg yfir helgi einu sinni í mánuði til Suður Afríku, sem tekur um 15 til 20 tíma, til að ná að eyða kvöldstund þar með börnunum mínum og svo flýg ég aftur til baka daginn eftir,“ segir Riaan.

Í frítíma sínum stundar Riaan köfun, fjallgöngur og er nýlega farinn að taka aftur upp golf. „Ég var áður mjög virkur í háfjallamennsku, ég hef til að mynda klifið Aconcagua í Argentínu sem er sjö þúsund metra hátt og mig langar að fara á Hvannadalshnúk. En núna er ég mest að stunda köfun hérna, til dæmis í Hvalfirði,“ segir Riaan.

„Ég er nýkominn úr árlegri köfunarferð með vinum innan um háhyrninga, höfrunga og hákarla í Suður-Afríku. Fyrir nokkrum árum vorum við nálægt hræi af dauðum hval sem hákarlar voru að tæta í sig og ákváðum að fara ofan í vatnið enda ekki oft tækifæri til að synda með söddum og sælum hákörlum. En svo allt í einu ætlaði stór tígrishákarl í mig svo ég þurfti að slá til hans með GoPro kjánaprikinu mínu sem virkaði sem betur fer.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.