Zara opnaði í dag vefverslun sína á Íslandi. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu þar sem segir að með opnuninni sé Zara að marka viss þáttaskil í alþjóðlegri sókn sinni þegar kemur að netverslun á þeim svæðum þar sem Inditex, móðurfélag Zara, er á markaði. Á vefsíðunni zara.com/is geti viðskiptavinir á Íslandi nálgast allan fatnað og varning fyrir dömur, herra og börn sem fáanlegur sé á því markaðssvæði sem Zara á Íslandi starfar á.

„Netverslunin hefur verið hönnuð til að veita notendavæna upplifun við netkaupin en viðmót hennar er á ensku. Auk heimasíðu Zara, geta viðskiptavinir notast við snjallforrit Zara sem fáanlegt er fyrir bæði iOS og Android,“ segir í tilkynningunni.

Viðskiptavinir geti valið að fá pantanir sínar heim að dyrum gegn gjaldi eða sótt í verslun Zara, þeim að kostnaðarlausu. Stöðluð heimsending kosti 795 krónur en sé ókeypis ef verslað er fyrir meira en 9.995 krónur. Áætlaður sendingartími er 5-8 virkir dagar. Til að skila eða skipta vöru, hafa viðskiptavinir möguleika á að senda vörur til baka eða skila í verslun innan 30 daga.

Þá bjóðist viðskipavinum Zara á Íslandi að notast við alþjóðlegt þjónustuver Zara sem nú þegar er í boði á þeirra markaðssvæði, bæði netspjall og samfélagsmiðla þar sem tekið verði við fyrirspurnum varðandi greiðslu eða önnur atvik. Þjónustuverið sé opið mánudaga til föstudaga frá klukkan 9:30 til 19:00 og laugardaga frá klukkan 10:00 til 18:00. Viðskiptavinir geti einnig haft samband við verslun Zara í Smáralind.