Spænski tískurisinn Inditex skilaði 654 milljóna evra hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Jókst hagnaður fyrirtækisins um 18% frá sama tímabili í fyrra.

Inditex sem á meðal annars Zöru, PULL&BEAR og Massimo Dutti seldi vörur fyrir 5,5 milljarða evra á tímabilinu og jókst vörusala um 14% á milli ára.

Þrátt fyrir aukningu í hagnaði og sölu hefur hlutabréfaverð félagsins lækkað um 1,25% það sem af er degi. Segir í frétt Financial Times að afkoma á fyrsta ársfjórðungi hafi verið í samræmi við það sem greiningaraðilar hefðu gert ráð fyrir.

Ástæða vaxtarins er rakinn til þess að Zara hóf að bjóða upp á netverslun fjórum Asíulöndum. Þrátt fyrir að fyrirtækið eigi samtals 9 vörumerki nemur hlutdeild Zöru tveimur þriðju af heildar hagnaði. Auk þess er jákvæð gengisþróun talinn eiga hlut í góðu gengi félagsins á tímabilinu.

Inditex er stærsti fataframleiðandi heims og nemur heildarmarkaðsverðmæti fyrirtækisins um 110 milljörðum evra. Hefur áragnur Inditex gert Amancio Ortega stofnada fyrirtækisins að þriðja ríkasta manni heims samkvæmt lista Forbes.