Öllum verslunum bresku tónlista- og afþreyingaverslunarkeðjunnar Zavvi (sem áður hét Virgin Megastores) verður nú ýmist lokað eða seldar en hvað sem því líður mun keðjan líða undir lok í núverandi mynd og vörumerkinu lagt.

Tæplega 450 starfsmönnum keðjunnar verður sagt upp en nú þegar hefur um 2 þúsund manns verið sagt upp sem störfuðu hjá keðjunni sem áður rak yfir 110 verslanir.

Forsaga málsins er sú að að helsti birgir Zavvi er fyrirtækið Entertainment UK, dóttur félag Woolworths sem var að hluta til í eigu Baugs.

Eins og kunnugt er var verslunum Woolworths lokað fyrstu vikuna í janúar en Entertainment UK hefur þegar verið sett í greiðslustöðvun og mun verða keyrt í þrot.

Þannig hefur Zaavi ekki tekist að verða sér út um vörur síðustu mánuði en endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young var skipaður gæsluaðili yfir Zavvi og tók við rekstri þess um jólin. Síðan þá hefur endurskoðunarfélagið verið að loka hverri versluninni á fætur annarri.

Eins og áður hefur komið fram tíðkast það í Bretlandi að endurskoðunarfyrirtæki eða aðrir aðilar taki yfir rekstur félaga í greiðsluvanda samkvæmt dómsúrskurði frekar en að setja þau í greiðslustöðvun eins og þekkist hér á landi.

Í tilkynningu frá Ernst & Young milli jóla og nýárs kom fram að reynt yrði eftir fremsta megni að koma eigum og rekstri Zavvi i verð með því að selja eignir, lager og fleira.

Í byrjun vikunnar var stærstu verslun Zavvi, við Oxford stræti í Lundúnum, lokað en þar störfuðu um 140 manns í fullu starfi.

Þá hafa fimm verslanir verið seldar HMV, helsta samkeppnisaðilar Zavvi.