Eigendaskipti hafa orðið á Zenter rannsóknum ehf. en fyrirtækið framkvæmir markaðs-, viðhorfs-, þjónustu- og vinnustaðarannsóknir meðal íslenskra neytenda og fyrirtækja og annast meðal annars framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni.

Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri, sem hóf störf hjá Zenter rannsóknum árið 2015, hefur keypt út fyrri eigendur fyrirtækisins og er hann nú meirihlutaeigandi í nýju félagi, Prósenti ehf. Auk Trausta hafa lykilstarfsmenn eignast hlut í fyrirtækinu ásamt því sem nýir eigendur stíga inn. Engar breytingar munu verða á högum Zenter ehf. sem annast þróun og rekstur hugbúnaðar sem sérsniðinn er að vinnu í markaðsmálum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Nýjar áherslur hjá Prósent

Í tilkynningunni segir að það hafi verið niðurstaða stefnumótunarvinnu, sem unnin var í kjölfar eigandaskiptanna, að breyta nafni Zenter rannsókna ehf. og þróa nýja ásýnd vörumerkisins. Sú vinna hafi verið framkvæmd í góðu samstarfi við auglýsingastofuna Brandenburg.

„Með aðkomu nýrra eigenda og nýjum áherslum teljum við okkur geta blásið til nýrrar sóknar. Við viljum þróa þjónustuframboð okkar í takt við tíðarandann hverju sinni, ná betri fókus á það sem við höfum staðið okkur vel í og halda áfram að vera fagleg og praktísk. Sem dæmi munum við kynna nýjar lausnir og mælingar á næstunni. Með því að fá nýja hluthafa í liðið þá styrkjum við framvarðasveitina, praktísku ráðgjöfina og stækkum þann reynsluheim sem við vinnum út frá," segir Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents ehf., í tilkynningunni, en hann mun hafa unnið fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins og býr því yfir mikilli reynslu og þekkingu í rannsóknum, stefnumótun, markaðs-, sölu- og þjónustustjórnun.

Trausti, sem er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í markaðsstjórnun, starfaði áður sem ráðgjafi hjá Capacent/Gallup og þar áður sem verkefnastjóri yfir stefnu Íslandsbanka.

Ný í eigendahópi Prósents

Edda Sólveig Gísladóttir kemur ný inn í eigendahóp Prósents og mun hún starfa við hlið Trausta sem sérfræðingur í ráðgjöf rannsókna.

Fram kemur að Edda hafi áratugalanga reynslu af ráðgjafarstörfum og stefnumótun, vörumerkjauppbyggingu og markaðsmálum hjá fyrirtæki sínu, Kapli markaðsráðgjöf, en einnig úr starfi sínu sem markaðsstjóri Bláa lónsins í tíu ár.

Edda, sem er með M.Sc. í alþjóðamarkaðsfræði frá University of Strathclyde í Glasgow og B.Sc. í rekstrarfræði frá Háskólanum á Akureyri, hefur haldið fjölda fyrirlestra og sinnt kennslu í markaðsfræði.

Auk lykilstarfsfólksins, Atla Geirs Hallgrímssonar, Bryndísar Marteinsdóttur og Katrínar Þyri Magnúsdóttur, hafa Árni Árnason og Guðmundur Tómas Axelsson jafnframt bæst í eigendahópinn.

Í tilkynningunni kemur fram að Árni njóti langrar reynslu af auglýsinga- og markaðsmálum, bæði sem fyrrverandi eigandi og stofnandi auglýsingastofunnar Árnasynir og sem kennari í markaðsfræði við Háskóla Íslands.

Þá kemur fram að Guðmundur sé eigandi upplýsingatæknifyrirtækisins WebMo Design. Hann hafi mikla reynslu af markaðsmálum, meðal annars frá störfum sínum í fjármálageiranum og sem markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, RB.

Zenter ehf. heldur áfram með óbreyttu sniði

Þrátt fyrir breytingar á nafni Zenter rannsókna ehf. mun Zenter ehf. áfram verða rekið með óbreyttu sniði. Zenter ehf. hefur frá árinu 2010 þróað og rekið hugbúnað sem inniheldur m.a. tölvupósts-, SMS-, CRM- og sölutækifæriskerfi (e. leads). Í tilkynningunni kemur fram að engin eignatengsl séu meðal Zenter ehf. og Prósents ehf. þó að samstarf hafi verið, og verði áfram, mikið.