„Við opnum við Háskóla Íslands í næstu viku,“ segir Árni Sigurjónsson, verkefnastjóri Zipcar á Íslandi. Zipcar er alþjóðlegt vörumerki en ALP, móðurfélag Avis og Budget á Íslandi, heldur utan um deilibílaþjónustuna.

Zipcar kom fyrst á götur borgarinnar fyrir um það bil mánuði. Hingað til hefur aðeins verið hægt að leigja bílana við Háskólann í Reykjavík og Landspítalann. „Þetta hefur gengið mjög vel og fólk er spennt fyrir svona þjónustu, það var mikil eftirspurn eftir þessu. En það er ákveðin vinna og vitundarvakning að fá fólk til að prófa og nota þjónustuna því þetta er nýtt á Íslandi og ekki allir sem þekkja deilibílaþjónustu,“ segir Árni. Zipcar býður viðskiptavinum sínum að leigja bíl í að minnsta kosti klukkutíma í senn. Fólki stendur enn til boða að gerast áskrifendur að Zipcar í mánuð sér að kostnaðarlausu, og innifalið í því er eins klukkutíma leiga.

„Þetta hefur nánast gengið betur en við bjuggumst við.“ Nú eru tveir deilibílar fyrir utan HR, þrír við Landspítalann og verða líklega tveir við HÍ en gætu orðið fleiri. „Við ræðum það við alla þar sem við setjum upp bíla að ef sú staða kemur upp að bílarnir eru alltaf í notkun að fjölga þá stæðum og bílum. Það er hagur allra.“ Enn sem komið er eru bílar Zipcar knúnir jarðefnaeldsneyti en í framtíðinni er stefnan að bílarnir verði allir rafbílar. „Við erum með samning við ON um að setja upp hleðslustöðvar en það tekur tíma og við vildum bjóða upp á þessa þjónustu strax,“ segir Árni.

Hann segir borgaryfirvöld hafa tekið mjög vel í hugmyndir Zipcar. „Við verðum með bíla í boði á þremur stöðum til viðbótar við HÍ, Landspítalann og HR miðsvæðis í Reykjavík fyrir áramót og verða staðsetningarnar því samtals sex. Reykjavíkurborg er gríðarlega já­ kvæð með þetta og við erum mjög spennt að opna á fleiri stöðum.“ Hann segir fyrirtækið vera í góðu samstarfi við háskólana og spítalann, enda bílarnir geymdir á bílastæði þeirra. „Það er gríðarlegur hagur fyrir fyrirtæki að fólk komi ekki á bíl í vinnuna og sé með Zipcar ef það þarf að skjótast frekar en að láta bílinn standa óhreyfðan í átta klukkutíma á bílastæðinu.“ segir Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .