Íslenski fataframleiðandinn hefur samið við finnska dreifingaraðilann Sultrade sem sér um dreifingu á íþrótta- og útivistarfatnaði í Finnlandi, Eystrasaltslöndunum og Rússlandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Samningurinn er mikilvægur þáttur í áformum ZO-ON um frekari útflutning á vörum sínum og er gert ráð fyrir að vegna hans muni tekjur fyrirtækisins aukast um allt að 10 prósent þegar líður á,“ er jafnframt tekið fram í tilkynningunni.

Hægt verður að kaupa vörur ZO-ON í útivistar- og fataverslunum Sultrade í fyrrnefndum löndum. ZO-ON hefur unnið að því að móta nýja vörumerkjastefnu í samvinnu við dönsku markaðs- og vörkumerkjastofuna CO+ upp á síðkastið með það að leiðarljósi að gefa vörumerkinu alþjóðlegri brag.

Haft er eftir Halldóri Erni Jónssyni, framkvæmdastjóri ZO-ON, að þessi tímamótasamningur við Sultrade sé afrakstur mikillar vinnu við nýja hönnun og breyttar áherslur innan fyrirtækisins. „Með samningnum verða vörur okkar fáanlegar í fjölmörgum verslunum í Finnlandi, Eystrasaltslöndunum og Rússlandi sem mun hjálpa mikið til við frekari útflutning og útbreiðslu vörumerkisins,“ er jafnframt haft eftir Halldóri.

„Við hjá Sultrade erum mjög spennt fyrir því að bæta ZO-ON við fjölskyldu okkar af gæðavörumerkjum,“ segir Risto Salo, framkvæmdastjóri Sultrade. „Við höfum trú á því að ný hönnun og áherslur hjá ZO-ON muni falla vel að okkar alþjóðlegu vörumerkjum og að okkar fyrsta samstarf við íslenskt fyrirtæki muni verða gjöfult fyrir báða aðila.“