Tæknifyrirtækið Zoom, sem rekur samnefnt samskiptaforrit, hefur ákveðið að segja upp tæplega 1.300 manns eða um 15% af starfsfólki sínu til að aðlagast breyttu rekstrarumhverfi. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um 7% í kjölfar þess að félagið sendi frá sér tilkynningu í dag.

Fyrirtækið sagðist hafa þrefaldast að stærð á innan við 24 mánuðum til að geta tekist á við miklar vinsældir forritsins í Covid-faraldrinum. Forstjórinn Eric Yuan segist hafa gert mistök með því að greina ekki betur hvort vöxtur Zoom væri sjálfbær.

Hann sagðist ætla að lækka eigin laun um 98% á fjárhagsárinu sem hófst í byrjun þessa mánaðar. Aðrir meðlimir framkvæmdastjórnar Zoom munu einnig lækka í launum um 20%.