Meta hefur hleypt af stokkunum nýju áskriftarþjónustunni Meta Verified, sem gerir notendum kleift að setja bláan skjöld við Instagram og Facebook reikninga sína, sem staðfestir auðkenningu, fyrir allt að 15 dali eða nemur tæplega 2 þúsund krónum á mánuði.

„Segja má að Zuckerberg sé að nýta bragð úr herkænsku Musk. Hver má svo dæma um hversu mikil herkænskan sé eða hvort þetta sé nauðsynlegt svar Meta við þeirri þróun sem ríkir um persónuvernd og óöryggi auglýsingatekna” segir Hreggviður Magnússon, framkvæmdastjóri The Engine.

Áskriftarþjónustan, sem kemur fyrst út í Nýja Sjálandi og Ástralíu, kostar 11,99 dali fyrir vefáskrift en 14,99 dali í stýrikefunum iOS og Android.

„Samkvæmt Meta mun þetta auka vernd gegn fölskum reikningum en Meta mun leyfa notendum að staðfesta auðkenni þeirra með því að nota ríkisútgefin skilríki og jafnframt munu notendur hafa beinan aðgang að þjónustuveri,” segir Hreggviður og bætir við að The Engine og Pipar\TBWA fylgist vandlega með þeim öru tæknibreytingum og uppfærslum hjá tæknirisunum.

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, móðurfélags Facebook, bar fyrir sig að Meta Verified auki áreiðanleika og öryggi í þjónustu félagsins. Þá verði boðið upp á áskriftarleiðina í fleiri löndum bráðlega en hann gaf þó ekki upp tímaramma.

Breytt sýn Zuckerberg

Hreggviður segir að breytt nálgun hjá Facebook þegar kemur að áskriftarþjónustu megi m.a. rekja til breytinga hjá Apple er varða öflun persónuupplýsinga. Með Meta Verified sé netrisinn að fjölga tekjustoðum eftir krefjandi ár.

„Árið 2021 innleiddi Apple strangar persónuverndarbreytingar, þekktar sem App Tracking Transparency á iOS sem draga almennt úr getu Meta og annarra til að fylgjast með netvirkni og hegðun notenda til þess að geta miðað betur á þá með auglýsingum,” segir Hreggviður.

„Meta, sem græðir næstum allt sitt á auglýsingum, sagði á síðasta ári að aðgerð Apple myndi kosta fyrirtækið meira en 10 milljarða bandaríkjadala í töpuðum auglýsingatekjum árið 2022.“