Mark Zuckerberg stofnandi Facebook vill ólmur komast með fyrirtæki sitt á kínverskan markað, sem telur einhverjar 550-600 milljónir netnotenda. Til þess að ná þessu markmiði sínu hélt hann nú á dögunum ræðu í Tsinghua háskóla í Beijing - og á kínversku, hvorki meira né minna.

Facebook, líkt og Google og Youtube auk annarra vestrænna netmiðla og vefsíða, eru ritskoðuð og notkun þeirra einfaldlega bönnuð af stjórnvöldum í Kína.

Í ræðunni, sem var með þungum bandarískum hreim og tuttugu mínútna löng, talaði Zuckerberg um að Kína hafi sögulega séð ávallt verið land frumkvöðlastarfsemi.

Forstjórinn fjölhæfi hafði komið kínverskum orðtökum og viskumolum fyrir í ræðunni sinni, en í henni ræddi hann sérstaklega um stofnun fyrirtækis síns og áhuga sinn á því að stækka við sig og ráðast inn á kínverska samfélagsmiðlamarkaðinn.