Enginn maður í tölvugeiranum hefur grætt meira undanfarið ár en Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. Eignir hans eru taldar nema 19 milljörðum bandaríkjadala eða um 2300 milljörðum króna.

Zuckerberg er sjötti ríkasti maður úr tölvugeiranum, samkvæmt lista Forbes. Bill Gates, forstjóri Microsoft, trónir eftir sem áður á toppnum. Á eftir honum kemur Larry Ellison, forstjóri Oracle, og í þriðja sæti Jeff Bezos, forstjóri Amazon. Í fjórða og fimmta sæti eru svo Larry Page og Sergey Brin, stofnendur Google.

Facebook var skráð á hlutabréfamarkað í maí í fyrra. Í fyrstu gekk brösulega og lækkuðu hlutabréfin mikið í verði. Núna í sumar hefur aftur á móti orðið kúvending á og er virði hlutabréfa svipað og það var við skráninguna.

Meira má lesa um þetta á vef Forbes.