MarK Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, mun aðeins fá einn bandaríkjadal í laun á þessu ári og mun ekki heldur fá neinar bónusgreiðslur. Hann er þar með kominn í fámennan hóp stjórnenda stórra tæknifyrirtækja sem allir eru eða voru með einn dal í laun. Steve Jobs heitinn, þáverandi forstjóri Apple, var fyrstur til að taka á sig slíka launalækkun árið 1998 og frá þeim tíma hefur þetta orðið að ákveðnu stöðutákni. Maður þarf jú að vera vel staddur fjárhagslega til að þurfa ekki á hárri launagreiðslu að halda.

Aðrir í eins dals klúbbnum eru m.a. stofnendur Google, Larry Page og Sergey Brin, og forstjóri Google Eric Schmidt. Sá síðastnefndi, sem er nú stjórnarformaður Google, er reyndar með nokkurra milljóna dala laun í dag. Larry Ellison hjá Oracle, Elon Mush hjá Tesla, Mark Pincus hjá Zynga og Meg Whitman hjá HP voru öll á einhverjum tíma með eins dollara laun á ári.

Það er þó ekki eins og Zuckerberg sé á flæðiskeri staddur fjárhagslega. Í fyrra nýtti hann sér kauprétti á 60 milljónum hluta í Facebook. Hann keypti bréfin fyrir nánast ekki neitt og voru þau á þeim tíma um 2,3 milljarða dollara virði, eða um 270 milljarða króna. Hann þurfti reyndar að selja helming bréfanna til að eiga fyrir skattgreiðslunum. Hann situr svo á öðrum 60 milljóna bréfa kauprétti.