Átta innherjar hjá Facebook hafa selt bréf í félaginu fyrir samanlagt tæpa 4 milljarða dollara, rúma 400 milljarða íslenskra króna, síðan hneykslismálið í kringum gagnagröft Cambridge Analytica kom upp um miðjan mars. Um 90% af þeirri upphæð runnu til stofnanda og framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Mark Zuckerberg, en salan er liður í fyrirætlun sem hann kynnti í september síðastliðnum, um að hann hygðist selja allt að 18% af bréfum sínum í félaginu.

Fyrir 3 árum sagðist hann með tíð og tíma ætla að selja 99% af eign sinni til að fjármagna góðgerðastarfsemi. Á öðrum ársfjórðungi seldi hann 13 milljónir bréfa, tvöfalt það magn sem hann seldi á fjórðungnum á undan, og tífalt magnið þar á undan. Það hlýtur að teljast ansi góð tímasetning í ljósi verðhruns bréfanna síðan ársfjórðungsuppgjörið fyrir annan ársfjórðung var birt.

Annað sem vekur athygli er tillaga sem lögð var fram aðeins nokkrum klukkustundum áður en fréttir af uppgjörinu ollu verðlækkun hlutabréfanna, og Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um . Tillagan fól í sér að Zuckerberg yrði vikið frá störfum sem stjórnarformanni og óháður formaður yrði skipaður í hans stað.

Tillagan var lögð fram af fjárfestingasjóði sem á sjálfur aðeins um 11 milljónir dollara í félaginu, en samkvæmt heimildum Business Insider nýtur tillagan stuðnings hluthafa sem samanlagt eiga að minnsta kosti 3 milljarða dollara í félaginu. Tillaga sama eðlis hafði áður verið lögð fram í fyrra, en var felld, þrátt fyrir að rúmur helmingur óháðra fjárfesta hafi kosið með henni.

Zuckerberg þarf þó ekki að óttast, þar sem hann stjórnar meirihluta atkvæðavægis í félaginu, en B-flokks hlutabréfin sem hann og nokkrir innherjar eiga bera með sér tífaldan atkvæðarétt á við A-flokks bréfin sem almennir fjárfestar hafa aðgang að; Zuckerberg á persónulega yfir 75% af B-bréfunum.