Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi samfélagsmiðilsins Facebook, hefur gengið frá sinni fyrstu stóru sölu á hlutafé í fyrirtækinu til að fjármagna góðgerðarstarfsemi fjölskyldu sinnar.

Zuckerberg seldi yfir 760.000 hluti í Facebook fyrir rúmar 95 milljónir Bandaríkjadala. Verð hlutanna var frá 122,85 til 124,31 og voru þeir seldir í gegnum eignarhaldsfélög og góðgerðarfélag.

Þetta er einungis fyrsta salan af mörgum í vegferð Zuckerberg til að fjármagna nýsköpun í heilsu, vísindum og menntun. Eftir að Zuckerberg og eiginkona hans Pricsilla Chan eignuðust dótturina Maximu hétu þau að gefa 99% af auðævum sínum frá sér yfir ævina.

Á þeim tíma, í desember síðastliðnum, var áformuð gjöf þeirra um 45 milljarða dala virði. Síðan þá hafa hlutabréf í Facebook hækkað um 15 prósent.