Uppfært:

Dómarinn sem skipaði fyrir um að WhatsApp væri bannað í 48 klukkustundir í Brasilíu hefur nú tekið bannið aftur . Þetta gerir hann vegna þess að honum finnst ósanngjarnt að láta heila þjóð líða fyrir ósamvinnuþýði eins fyrirtækis.

Brasilíubúar hafa verið duglegir að grínast með jafnt sem gagnrýna ákvörðun dómarans. Flestum fannst þá erfitt að lifa án forritsins, en þar eð svo margir nota það er það ómissandi liður í að skipuleggja hátíðarhöldin með fjölskyldu og vinum.

Bannað að spjalla gegnum Whatsapp

Um það bil 100 milljón manns nota spjallforritið WhatsApp í Brasilíu, en næstu tvo daga verður lokað fyrir þjónustu forritlingsins þarlendis. Dómari hefur boðað til lokunar á þjónustunni næstu 48 klukkustundirnar.

Ástæða bannsins er sú að eftir að lögreglan fór fram á upplýsingar, nánar tiltekið skilaboð sem eiturlyfjasmyglarar höfðu sent sín á milli, frá WhatsApp. Félagið synjaði löggæslumönnum og saksóknurum aðgangi að gögnunum. Reynst hefur vandkvæðasamt fyrir stjórnvöld að glugga í upplýsingar WhatsApp notenda eftir að félagið byrjaði að dulkóða skilaboð sem send voru milli notenda fyrir rúmu ári síðan.

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, tjáði sig á samfélagsmiðlinum í dag. Hann sagði daginn í dag vera sorgardag fyrir Brasilíubúa, og sagðist vera „agndofa yfir því að tilraunir Facebook til að verja gögn notenda sinna hefðu leitt til þessarar öfgafullu ákvarðanar eins ákveðins dómara,” - sem kæmi niður á öllum notendum forritsins.

WhatsApp er í eigu Facebook, en samfélagsmiðlarisinn keypti spjallforritið á síðasta ári fyrir 16 milljarða bandaríkjadala, eða heila 2080 milljarða íslenskra króna. Gífurlegt magn fólks notar það í Brasilíu, eða 93% internetnotenda á aldrinum 16-64 ára.