Mark Zuckerberg, stofnandi samfélagsmiðilsins Facebook, telur að stjórnvöld í Bandaríkjunum eigi að skoða fyrir alvöru hugmyndir um borgaralaun. Með því væri hægt að tryggja fólki svigrúm til nýsköpunar og hugmyndavinnu þegar svo ber undir. Þetta kom fram í ræðu Zuckerberg við útskriftarathöfn í Harvard háskóla á fimmtudaginn sl.

Hugmyndin um borgaralaun, þar sem allir fá greidda takmarkaða upphæð frá ríkinu, án tillits til þess hvort að einstaklingar stunda vinnu eða ekki, hefur vakið mikla athygli að undanförnu í nýsköpunarheiminum ytra, þá sérstaklega í Kísildalnum í Kaliforníu.

Kanada og Finnland gera tilraunir með borgaralaun

Kanada og Finnland eru þau lönd sem helst hafa verið tengd hugmyndinni um borgaralaun. Sem dæmi má nefna að um þessar mundir stendur yfir tveggja ára tilraunaverkefni í Finnlandi þar sem 2.000 ríkisborgarar fá greiddar 560 evrur mánaðarlega eða því sem jafngildir tæplega 63 þúsund krónum. Launin sem að greidd eru út verða ekki skattlögð.

Alvitlaus hugmynd

Á fréttamiðlum á borð við CNN hefur komið komið fram að hugmyndin um borgaralaun hafi einnig verið rædd hérlendis. Er þar vísað til þess að Píratar hafa til að mynda velt upp hugmyndinni um borgaralaun og lagði flokkurinn meðal annars fram þingsályktunartillögu um málið. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók ekki vel í hugmyndina, og kallaði borgaralaun „það alvitlausasta sem að hann hafi heyrt.“

Fyrr á þessu ári kusu Svisslendingar um borgaralaun, en þá hefði fjárhæðin sem hver einstaklingur hefði hlotið numið 325 þúsund krónur. Þeirri hugmynd var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní. Yfir 75% af svissneskum almenningi voru andvígir hugmyndinni.