*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 14. ágúst 2017 14:14

Zuma vill refsa andstæðingum

Jakob Zuma, forseti Suður Afríku og leiðtogi ríkisstjórnarflokksins í landinu síðan 1994 vill refsa þeim þingmönnum flokksins sem kusu gegn honum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Forseti Suður Afríku, Jakob Zuma, vill að flokkur sinn, Afríska þjóðarráðið, ANC, sem ráðið hefur lögum og lofum í landinu síðan aðskilnaðarstefnan var endanlega lögð af árið 1994, finni út hvaða þingmenn flokksins kusu gegn honum í vantrauststillögu á þingi landsins fyrr í mánuðinum. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Um 30 þingmenn flokksins eru taldir hafa kosið gegn forsetanum í vantrauststillögunni, sem í þetta sinn var leynileg kosning, þó hún hafi ekki náð að fella forsetann sem fengið hefur á sig margar ásakanir um spillingu á valdatíma sínum. Zuma nálgast nú lok síns seinna kjörtímabils og er hann talinn vilja stjórna því hver eftirmaður hans er svo viðkomandi geti haldið honum frá ákærum, og er jafnvel talið að hann vilji koma fyrrverandi konu sinni í forsetaembættið. 

Í gær sagði forsetinn á fundi þjóðarráðsins að þeir sem hlypust undan merkjum væru „með tvöfalt hjarta, annað fyrir ANC, hitt fyrir aðra flokka,“ sem „þyrfti að taka fyrir á fundi aganefndar flokksins.“ Jafnframt sagði hann að óvinir flokksins væru með þessu að velta fyrir sér hvernig þeir gætu veikt hann og tekið völdin í landinu, sem við ættum aldrei að leyfa þeim að gera aftur.

Stjórnarandstæðingar hafa reynt að koma Zuma frá völdum síðan hann rak fjármálaráðherra landsins Pravin Gordhan í marsmánuði, sem hafði mjög slæm áhrif á fjármálamarkaði landsins þegar tvö matsfyrirtæki lækkuðu skuldabréf ríkisins niður í ruslflokk í kjölfarið.

Aðalstjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðislega bandalagið, sem á rætur sínar að rekja til andstæðinga aðskilnaðarstefnunnar í landinu meðal hvítra hyggst næst koma fram með tillögu um að leysa upp þingið og kalla til nýrra kosninga. Afríska þjóðarráðið, sem hefur haldið um 2/3 meirihluta í landinu meira og minna síðustu 23 árin segir slíkt tal bera vott um draumóra.