Fyrirtækið Zymetech hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í dag, en Zymetech er íslenskt líftæknifyrirtæki á sviði rannsókna, þróunar, framleiðslu og sölu náttúrulegra sjávarensíma til hagnýtingar í húðvörur, lækningatæki og lyf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannís. Ágústa Guðmundsdóttir prófessor við HÍ og rannsóknastjóri Zymetech veitti verðlaununum viðtöku. Efni þingsins að þessu sinni var Frá frumkvöðli til alþjóðamarkaðar og sóttu rúmlega 200 manns þingið, sem haldið var á Grand hótel Reykjavík.

Zymetech nýtir meltingarensím úr Norður-Atlantshafsþorski og hefur tekist að skapa verðmæta viðbótarafurð úr hráefni sem í gegnum tíðina hefur að langmestu leyti verið fargað. Þannig hefur fyrirtækið þróað afurð sem margfaldar virði þorsksins. Mikil rannsóknarvinna liggur að baki þeirri tækni sem tryggir virkni ensímanna og viðheldur stöðugleika þeirra. Byggt á þessari tækni hefur Zymetech þróað efnablönduna Penzyme®, sem er virka efnið í vörum fyrirtækisins.