Bandaríska tölvuleikjafyrirtækið Zynga hefur gripið til harkalegra aðgerða í því augnamiði að draga úr rekstrarkostnaði. Þar á meðal hefur fyrirtækið lokað fyrir nokkra leiki, hætt sölu þeirra í smáforritaverslunum og lokað fyrir aðgang að öðrum leikjum. Aðgerðirnar hafa áhrif á 11 leiki sem fyrirtækið hefur sent úr smiðju sinni. Á sama tíma hefur 100 starfsmönnum verið sagt upp. Fram kemur í umfjöllun netmiðilsins TechCrunch , að áherslan verði á þróun og framleiðslu nýrra leikja.

Hlutabréf Zynga voru skráð á markað fyrir ári. Þau stóðu í 10 dölum á hlut í útboði fyrir skráningu. Margir sögðu það of hátt verð og ljóst um það leyti að verðmat tölvuleikja- og netfyrirtækja á borð við Facebook væri of hátt skráð. Hvort það hafi verið raunin eður ei þá gerðu hlutabréf Zynga lítið annað en að lækka í verði á nýliðnu ári. Þau standa nú í 2,33 dölum á hlut. Það jafngildir 77% lækkun.

Leikunum sem ýmist er leggja niður eru PetVille, Mafia Wars 2, FishVille, Vampire Wars og fleiri sem notið hafa mikilla vinsælda á Facebook. Þá hefur Mafia Wars Shakedown verið tekinn úr sölu og lokað fyrir aðgang nýrra leikjaunnenda að öðrum tölvuleikjum síðar í þessum mánuði. Í TechCrunch er bent á að þótt um marga leiki sé að ræða þá lifi enn 30 leikir frá Zynga góðu lífi.