Það kemur varla á óvart að stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins hafi skilað tapi á faraldursárinu 2020. Þó að ferðaþjónustan hafi róið lífróður í heimsfaraldrinum sem kom ofan í fall Wow Air árið 2019 voru árin þar á undan greininni gjöful. Ferðamönnum fjölgaði um tugi prósenta á ári og umsvif ferðaþjónustufyrirtækja jukust eftir því.

Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar má finna úttekt á arðbærustu fyritækjunum í nokkrum af stærstu atvinnugreinum landsins. Í úttektinni er bæði að finna samantekt á hæstu arðsemi út frá miðgildi arðsemi árin 2016 til 2020 eftir atvinnugreinum sem og miðgildi rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) í hlutfalli við rekstrartekjur félaganna. Ýmis skilyrði voru fyrir veru á listanum á borð við lágmarkstekjur, afkomu og eigið fé.

Efst á lista yfir arðsömustu fyrirtækin í ferðaþjónustunni er Travelshift ehf., móðurfélag Guide to Iceland. Félagið hagnaðist samanlagt um meira en tvo milljarða á árunum 2016-2019.

Bláa lónið er líklega þekktasta ferðaþjónustufyrirtækið á listanum á heimsvísu. Félagið hefur skilað eigendum sínum ríkulegri ávöxtun undanfarin ár þótt afkoman árið 2020 hafi ekki verið beysin. Þá hefur rekstur sumra stórra hótelkeðja og rútufyrirtækja einnig gengið vel ef marka má listann. Þannig eru Miðbæjarhótel, sem reka þriðju stærstu hótelkeðju landsins, sem og Hópbílar á listanum.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .