Á lista yfir arðsömustu framleiðslufyrirtækin kennir ýmissa grasa. Þar má finna hreinlætisvöruframleiðanda, sementssala, steypuframleiðanda, stoðtækjaframleiðanda og stærsta fyrirtæki landsins, Marel.

Frjáls verslun hefur í samstarfi við Creditinfo tekið saman arðsömustu fyritækin í nokkrum af stærstu atvinnugreinum landsins. Úttektin birtist í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar en alls nær úttektin til um tvö hundruð fyrirtækja.

Í úttektinni er bæði að finna samantekt á hæstu arðsemi út frá miðgildi arðsemi árin 2016 til 2020 eftir atvinnugreinum sem og miðgildi rekstrarhagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) í hlutfalli við rekstrartekjur félaganna.

Tandur, sem framleiðir, dreifir og selur hreinlætisvörur og er í meirihluta eigu Bjarna Ármannssonar, forstjóra Iceland Seafood, hefur skarað fram úr hvað arðsemi varðar meðal framleiðslufyrirtækja undanfarin fimm ár. Hefur félagið að miðgildi skilað tæplega 54% arðsemi eigin fjár síðastliðin fimm ár.

Næst á eftir kemur Sementsverksmiðjan sem lengi vel framleiddi og seldi eigið sement en hefur um þó nokkurt skeið flutt inn sement sem það endurselur svo og dreifir.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu nam að miðgildi rétt rúmlega 41%. Sementsverksmiðjan er í dag í eigu Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, móðurfélags BM Vallár, sem þingmaðurinn og ráðherrann fyrrverandi Þorsteinn Víglundsson stýrir. BM Vallá situr einmitt í fjórða sæti arðsemislistans með rúmlega 35% arðsemi eigin fjár að miðgildi síðastliðin fimm ár. Á milli systurfélaganna situr Steypustöðin með tæplega 40% arðsemi.

Skilyrði fyrir veru á topplistanum:

  • Hafi skilað inn ársreikningi fyrir öll ár 2016 til 2020.
  • Fyrirtæki eru í virkri starfsemi skv. mati Creditinfo.
  • Jákvætt eigið fé á hverju ári 2016-2020.
  • Rekstrartekjur yfir einum milljarði á hverju ári 2016-2020.
  • Eigið fé yfir 100 milljónum króna árið 2020.
  • Á lista yfir minni fyrirtæki eru skilyrði um rekstrartekjur á milli 100 og 1.000 milljónir króna og eigið fé yfir 50 milljónum króna árið 2020.
  • Önnur skilyrði sem Frjáls verslun og Creditinfo setja.

Nánar er fjallað um arðbærustu fyrirtæki landsins í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .