Tvö af þremur stóru íslensku kortafyrirtækjunum voru seld til erlendra aðila á síðasta ári. Fjárfestahópur keypti Borgun í gegnum félagið Salt Pay og þá keypti breska fjártæknifyrirtækið Rapyd Kortaþjónustuna. Fjallað er um eigendur félaganna í úttekt Frjálsrar verslun á 30 af umsvifamestu erlendu fjárfestunum hér á landi.

Úr hernum í fjártækni

Arik Shtilman er forstjóri breska fjártæknifélagsins Rapyd sem fyrr á þessu ári keypti Korta. Kringum aldamótin var Shtilman í ísraelska hernum en þaðan lá leiðin til IBM í heimalandinu. Hann sagði skilið við það árið 2004 og stofnaði félagið Itnavigatoer. Það félag var keypt árið 2013 af Avaya. Fjármunina úr sölunni nýtti hann til að koma sér inn í fjártækniheiminn með stofnun Cashdash en það átti síðar eftir að verða að Rapyd. Hugmyndin með Cashdash var að gera notendum kleift að taka út reiðufé í hvaða hraðbanka sem er á jarðkringlunni án þess að vera með reikning þar eða greiðslukort.

Skömmu síðar færði félagið út kvíarnar og hætti að vera eingöngu „business to customer“ og fór að einblína meir á „business to business“. Vöxtur félagsins hefur verið gífurlegur en starfsmannafjöldi þess tæplega sjöfaldaðist á einu ári, úr 30 árið 2018 í um 200 árið 2019, auk þess að félaginu áskotnaðist 180 milljóna dollara framlag frá fjárfestum. Rapyd bauð upp á 900 ólíkar greiðsluleiðir en skorti leyfi til að starfa sem færsluhirðir. Með kaupunum á Korta var það vandamál leyst. Undir lok síðasta árs var Rapyd metið á um 146 milljarða króna.

Eigandi Borgunar vill helst ekki myndast

Á vormánuðum var tilkynnt um að Íslandsbanki hefði selt hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun en kaupverð var um fimm milljarðar króna. Kaupandi var hið alþjóðlega Salt Pay en fyrst um sinn var margt á huldu um það hverjir stóðu að baki því félagi. Í ljós kom að nýr forstjóri var hinn brasilíski Eduardo Pontes en hann er stofnandi hins brasilíska félags StoneCo sem hefur sérhæft sig í stafrænum greiðslum. Það var skráð á markað í New York árið 2011.

Að auki kom hann að stofnun sjóðsins Arpex Capital Investimentos árið 2011 sem í dag kallast ACP Investment Ltd. en sá sérhæfir sig í fjárfestingum tengdum greiðslulausnum. Það var ekki í fyrsta sinn sem hann kom að stofnun fyrirtækis í þessum geira en áður hafði hann komið að stofnun lánshæfisfyrirtækisins Netcredit og Braspag Tecnologia em Pagamentos en það sístnefnda náði nokkrum árangri í rafrænum greiðslulausnum í Suður- Ameríku. Þótt Pontes hafi komið víða við er miklum erfiðleikum bundið að komast yfir ljósmyndir af honum og heimildir herma að þær séu teljandi á fingrum annarrar handar. Formaður stjórnar er Ali Mazanderani (sjá mynd) en hann hefur einnig verið í stjórn CreditInfo eftir að breski sjóðurinn Actis tvöfaldaði hlut sinn í félaginu.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .