Skjótt skipast veður í lofti. Síðustu misseri hafa einkennst af áföllum á áföll ofan. Þegar tveggja ára tímabil heimsfaraldurs var við það að kveðja tók við nýr kafli í Evrópu með miskunnarlausri innrás Pútíns í Úkraínu. Þar sér enn hvergi fyrir endann á martröð saklausra íbúa sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar.

Þrátt fyrir að blikna í samanburði við raunir Úkraínumanna finnast áhrif innrásarinnar langt út fyrir landamæri ríkisins. Hrávöruverðhækkanir og brestur á framleiðslukeðjum setja daglegt líf heimila og fyrirtækja úr skorðum, auk þess sem hækkandi orkuverð hefur keyrt kyndingarkostnað Evrópubúa upp úr öllu valdi. Þrátt fyrir að búa að verðmætri sérstöðu í orkumálum höfum við ekki farið varhluta af alþjóðlegri verðbólguþróun undanfarna mánuði, þó staðan sé betri hér en víða í nágrannaríkjum okkar.

Áhrif innrásar Rússa bætast við hraðan viðsnúning sem við Íslendingar upplifum nú eftir heimsfaraldurinn. Greiðslukortavelta rýkur upp, fjöldi ferðamanna er umfram væntingar og tæplega helming íslenskra fyrirtækja vantar starfsfólk. Útlit er fyrir að meira en 10 þúsund fleiri flytji til landsins en frá því á árinu og þenslan í hagkerfinu er veruleg. Tímar tómra veitingastaða og tveggja stafa atvinnuleysistalna virðast nú órafjarri.

Verjum árangurinn

Óhætt er að segja að samfélagið hafi tekið hratt við sér eftir faraldurinn, ekki síst vegna kröftugs stuðnings meðan á honum stóð. Það var ekki óumdeilt að ráðast í mótvægisaðgerðir upp á hundruð milljarða, en með þeim tókst að veita heimilum skjól, styðja við innlenda framleiðslu og halda lífsneistanum í fyrirtækjum sem nú ná vopnum sínum á ný.

Þrátt fyrir djúpa kreppu hafa gjaldþrot ekki verið fleiri en í venjulegu árferði og kaupmáttur hélt áfram að vaxa í faraldrinum.

Árangurinn blasir við. Þrátt fyrir djúpa kreppu hafa gjaldþrot ekki verið fleiri en í venjulegu árferði og kaupmáttur hélt áfram að vaxa í faraldrinum. Atvinnuleysi, sem hæst nálgaðist 12% í janúar 2021, er nú rúmlega 4% og samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar hefur hlutfall heimila sem á erfitt með að ná endum saman aldrei verið lægra en árið 2021. Um 7.000 manns keyptu sína fyrstu íbúð í fyrra, fleiri en nokkru sinni fyrr, og eru að meðaltali yngri en áður.

Góðu fréttirnar eru sannarlega á hverju strái og hafa verður hugfast að nýlegar vaxtahækkanir gerast frá stigi sögulegra lágra vaxta, lítilla vanskila og sterkrar stöðu flestra heimila. Nú er hins vegar grundvallaratriði að verja góða stöðu og forðast að þrálát verðbólga og hærri vextir éti upp árangur síðustu missera. Til að vel megi vera þurfum við að hafa hugrekki til að hverfa frá því sem reyndist vel í heimsfaraldri og niðursveiflu og horfa til lengri framtíðar.

Lægri tekjur og meiri útgjöld

Þegar við urðum fyrir stóru og skyndilegu áfalli þurfti að bretta upp ermar og örva hagkerfið, jafnt með beinum stuðningi og skattalækkunum.

Viðspyrnustyrkir, tekjufallsstyrkir, ráðningarstyrkir, hlutabætur, viðbótarframlög til heilbrigðis- og félagsmála og fjárfestingarátak eru aðeins brot af þeim aðgerðum sem kynntar voru til sögunnar. Skattkerfinu var beitt markvisst til að létta róðurinn með tekjuskattslækkun, skattalegum hvötum til fjárfestinga og framkvæmda, skattafrádrætti vegna stuðnings við almannaheillafélög, VSK-endurgreiðslum, frestun gjalddaga og stórauknum stuðningi við nýsköpun. Áfram mætti lengi telja. Sumar þessara aðgerða hafa runnið sitt skeið, en aðrar orðið að varanlegum verkefnum. Við þetta bætist mikil aukning í ýmsum tilfærslukerfum undanfarin ár, m.a. til barnafjölskyldna og tekjulægri hópa samfélagsins.

Það er auðvelt að þylja upp nýjar útgjaldahugmyndir, en erfiðara að útskýra hver á að borga.

Á sama tíma hafa skattar lækkað á öðrum sviðum. Þannig hafa tekjur af ökutækjum og eldsneyti skroppið saman samhliða ríflegum hvötum í þágu orkuskipta. Alls hafa um 28 milljarðar verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla á árunum 2012-2022, en fyrir vikið er Ísland meðal fremstu þjóða heims í rafbílavæðingu. Auk tugmilljarða ívilnana bera rafbílar í fæstum tilvikum vörugjald við innflutning, eigendur þeirra greiða lágmark bifreiðagjalds og borga eðli málsins samkvæmt engin vörugjöld af orkunotkun.

Samhliða jákvæðri þróun í orkuskiptunum er því sístækkandi hópur bíleigenda sem greiðir mjög lítið fyrir notkun vegakerfisins. Með þeirri þróun og tilkomu sífellt sparneytnari bíla hafa tekjur ríkissjóðs af skattlagningu ökutækja og eldsneytis dregist verulega saman og munu að öllu óbreyttu halda áfram að lækka. Það blasir því við að stór tækifæri felast í yfirstandandi heildarendurskoðun gjaldtöku af ökutækjum og umferð; jafnt til að áfram megi standa undir uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins - en ekki síður til að gera kerfið einfaldara og skiljanlegra.

Stóra myndin

Hér hafa aðeins örfá dæmi verið tekin, en samandregið má segja að síðustu misseri í ríkisrekstrinum hafi umfram annað einkennst af lækkandi tekjum og auknum útgjöldum. Augljóst er að slík þróun fær hvergi þrifist til lengdar og breytt staða kallar á breytta nálgun. Mikilvægasta verkefni næstu mánaða er að draga úr þenslu og leggja grunn að hagsæld til lengri tíma.

Verkefnið er framkvæmanlegt en krefjandi og kallar eðli málsins samkvæmt á málamiðlanir. Það er auðvelt að þylja upp nýjar útgjaldahugmyndir, en erfiðara að útskýra hver á að borga. Að sama skapi er auðveldara að sækja rétt sinn í botn og mæla fyrir vinsældarmálum líðandi stundar heldur en að leggja þau tímabundið til hliðar í þágu stóru myndarinnar.

Lágir vextir, hófleg verðbólga og stöðugt umhverfi skipta heimilin hins vegar meira máli en skammtímaávinningur og litlir plástrar. Rétt eins og við tókum höndum saman og gerðum það sem þurfti til á tímum faraldursins þurfum við nú að standa saman á nýjan leik. Í þetta sinn til að stuðla að farsælli framtíð, stöðugleika og traustum grunni sem getur staðið af sér óvænt áföll framtíðar.

Höfundur er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Greinin birtist í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út þann 23. júní 2022.