Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, er gagnrýninn á hægaganginn, sem ríkt hefur í uppbyggingu innviða hér á landi. Hann ræðir þessi mál í viðtali í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út í síðasta mánuði.

Þegar heimsfaraldurinn skall á og kreppan fylgdi í kjölfarið talaði Heiðar fyrir því að hér yrði farið í innviðauppbyggingu. Vísaði hann í skýrslu Samtaka iðnaðarins sem sýndi að innviðir á Íslandi hefðu verið sveltir af fjármagni frá árinu 2008. Í grein í Frjálsri verslun vorið 2020 sagði hann löngu tímabært að fara í mikla innviðauppbyggingu og raunar óskiljanlegt að ekki hafi verið byrjað þegar flugfélagið Wow féll og rými myndaðist til framkvæmda.

„Við munum ekki geta talað okkur upp úr núverandi samdrætti heldur þarf markvissar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og bæta lífskjör, eru varanlegar aðgerðir sem leggja grunninn að sterkara efnahagslífi," sagði Heiðar í greininni og benti ennfremur á að lífeyrissjóðina vantaði örugga lengri tíma fjárfestingakosti og því væri skynsamlegt að fá það fjármagn í uppbyggingu arðbærra innviða.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá í vetur er einmitt talað um að opna eigi fyrir fjárfestingar lífeyrissjóða í innviðum.

„Það hefur alltof lítið verið gert í þessum málun en frábært að nú eigi að opna fyrir fjárfestingu lífeyrissjóða í innviðum," segir Heiðar í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í síðasta mánuði. „Svo er búið að stofna innviðaráðuneyti, þó fyrr hefði verið. Innviðir hér eru nefnilega þannig að Faxaflóahafnir eru undir stjórn sveitarfélaga, Vegagerðin undir samgönguráðuneytinu, Flugvöllurinn í Keflavík er undir fjármálaráðuneytinu, veitukerfin eru undir ríkinu og sveitarfélögum. Þetta er vandinn."

Dauðafæri á línu

„Til þess að byggja upp innviði þarf að hafa ráðuneyti, stjórnvald, sem getur mótað stefnu 30 til 40 ár fram í tímann. Sundabraut er ágætt dæmi. Strax á áttunda áratug síðustu aldar var byrjað að ræða hana en ekkert hefur gerst því það eru svo margir sem koma að málinu að það klárast aldrei.

Framtíðarsvæði fyrir gámahöfn er ekki við Sundahöfn. Þar er einfaldlega ekki nóg land og það land sem nú geymir gáma og bíla er verðmætt byggingarland. Það á að færa höfnina þangað sem jarðnæði er ódýrt og meira pláss líkt og gert hefur verið í ótal hafnarborgum úti í heimi. Hér er verið að keyra gáma í gegnum borgina svo ekki sé nú talað um tímaskekkjuna að hafa olíutanka í Örfirisey og aka tankbílum fullum af olíu þvert í gegnum höfuðborgina. Það er ekki bara heimskulegt heldur stórhættulegt. Afhverju er höfnin ekki færð t.d. á Vatnsleysuströnd, þar er aðdjúpt, nóg bakland, stutt á flugvöllinn og svo framvegis.

Það þarf að hugsa áratugi fram í tímann því þannig er hægt að spara stórfé og auka lífsgæði gríðarlega. Ef við drögumst aftur úr og leyfum öllu að drabbast niður þá mun ungt fólk, sem er að leita að tækifærum, flytja úr landi. Á meðan önnur samfélög eru dínamísk og þróast þá munum við sitja eftir ef við gerum ekkert og það á ekki að vera valkostur. Fyrir fimm árum vantaði 400 milljarða króna í innviði en nú er sú tala komin í 800 og þá tel ég Landspítalann og Keflavíkurflugvöll ekki með. Ef lífeyrissjóðina vantar öruggar lengri tíma fjárfestingar og alþjóðlegir aðilar vilja koma inn í slíkar fjárfestingar þá er það dauðafæri á línu."

Borgarlínan og auðvelda reikningsdæmið

Heiðar er gagnrýninn á áform um borgarlínu.

„Nú er hún eitt helsta leiðarljósið í uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins. Það á að byggja í kringum drauma sem munu ekki rætast. Það er mjög auðvelt reikningsdæmi. Það eru milljón ferðir bíla í Reykjavík á dag. Ef við gefum okkur að sú óstjórn sem ríkt hefur í umferðarmálum undanfarna áratugi trufli ekki hverja ferð um meira en þrjár mínútur að meðaltali og meðaltímakaup sé fjögur þúsund krónur þá er árlegur kostnaður af þessu yfir 50 milljarðar króna. Við vitum að umferðartafir þróast eftir veldisvexti, sem þýðir að þrjár mínútur verða allt í einu sex mínútur, svo tólf mínútur og svo framvegis. Þannig að núna, þegar þetta er bara þrjár mínútur, þarf að gera eitthvað. En hugmynd meirihlutans í Reykjavík er að hægja enn frekar á umferðinni, eins og það kosti ekkert. Gagnvart Bylgjunni er þetta kannski ágætt, þá eru fleiri að hlusta, en ég veit hvort þetta gagnist nokkrum öðrum."

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .