Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem kemur út fimmtudaginn 13. apríl er ítarleg umfjöllun um Donald Trump og tilraunir hans til að stíga sem hæst á Forbes 400 listanum - stundum með ótrúlegum aðferðum. Hér á eftir er stutt brot úr greininni.

Fyrsta stórverkefnið

Árið 1975 var New York í niðurníðslu og borgin sjálf mjög nærri gjaldþroti. Við hlið Grand Central lestarstöðvarinnar var Commodore hótelið sem hafði verið byggt af New York Central lestarfélaginu.

Hótelið var opnað árið 1919 og mátti muna fífil sinn fegri. Trump tók höndum saman með Pritzker fjölskyldunni, sem átti Hyatt hótelkeðjuna, og keypti hótelið.

Donald Trump með demókrötunum Ed Koch, þáverandi borgarstjóra New York borgar, og Hugh L. Carey, þáverandi ríkisstjóra New York ríkis, að skoða fyrirhugaðar framkvæmdir við Commodore hótelið árið 1978.

Faðirinn Fred hafði mjög góð tengsl við demókratana Abraham Beame borgarstjóra og Hugh Carey ríkisstjóra. Svo góð að Trump fékk niðurfellda alla skatta af byggingunni í 40 ár.

Í bók sinni Listinni að semja sem kom út árið 1987 (e. The Art of the Deal) sagði Trump ástæðuna vera fyrir 40 ára samningi: „Vegna þess að ég bað ekki um 50.“

Árið 2016 reiknaði New York Times fjárhæð skattaívilnunarinnar sem borgarstjórinn gaf og þá jafngilti hún 360 milljónum Bandaríkjadala.

Þegar skattaafslátturinn rann út í apríl 2020 nam hann um 415 milljónum dala, eða sem svarar 58,1 milljarði króna á árunum fjörutíu.

Árið 1996 slitnaði upp úr samstarfi Trumps og Pritzker fjölskyldunnar sem endaði með kaupum þeirra síðarnefndu á hlut Trump samsteypunnar. Kaupverðið á hlutnum nam 120 milljónum dala.

Nánar er fjallað um Donald Trump í tímariti Frjálsrar verslunar sem kemur út fimmtudaginn 13. apríl.  Þar er m.a. fjallað um ríkustu Íslendingana. Hægt er að kaupa eintak af blaðinu eða gerast áskrifandi hér.

Forsíða Frjálsrar verslunar sem kemur út 13. apríl 2023.