Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar, sem kom út 13. apríl, er fjallað ítarlega um ríkustu Íslendinga, ríkustu Skandinavanna og ríkasta fólk í heimi.

Þar er einnig umfjöllun um Donald Trump og tilraunir hans til að ýkja auð sinn gagnvart blaðamönnum, þá helst blaðamönnum bandaríska viðskiptatímaritsins Forbes.

Hér er eftir er greinin um Trump í heild sinni.

Donald Trump laug sig inn á Forbes listann

Donald Trump komst inn á Forbes 400 listann þegar hann var birtur í fyrsta sinn árið 1982. Í kjölfarið hófst mikil og á stundum erfið samskipti milli blaðamanna tímaritsins og Trumps, og skáldaðrar persónu, um hversu ríkur fyrrum forsetinn var í raun.

Ljóst er að auður Trumps er mikill en á köflum miklu mun minni en hann hélt fram sjálfur. Í þessa fjóra áratugi hafa fjölmiðlar fjallað aftur og aftur um ósannindi Trumps. Forbes birti í byrjun mars stóra umfjöllun um Trump turninn. Þar kemur fram að Trump hafði haldið því fram að turninn væri 500% verðmeiri en matsmenn mátu hann á.

Donald Trump var kjörinn 45. forseti Bandaríkjanna í nóvember 2016, tók við embættinu í janúar 2017 og gegndi því til 2021. Trump verður 77 ára gamall í júní. Hann segist ætla að bjóða sig fram að nýju haustið 2024. Það er ekki útséð með það.

Trump eignaðist marga óvini sem forseti og þessa stundina virðist hann þurfa að svara fyrir margar ásakanir og hugsanlegar ákærur. Auk málssóknar sem hófst í september og tengist Forbes óbeint. Hvort hann hafi sagt ósatt um eignir sínar og skuldir.

Faðirinn var fasteignamógull

Fred Trump, faðir Trumps, var byggingarverktaki frá 15 ára aldri og fjárfesti aðallega í ódýrum íbúðarhúsum í Queens. Hann er sagður hafa byggt 27 þúsund íbúðir yfir ævina. Hann var af þýskum ættum en óttaðist að það kæmi niður á sér vegna nasismans svo hann sagðist vera sænskur.

Trump tók við fasteignarekstri föður síns árið 1971, þá 25 ára, og breytti nafni móðurfélagsins í The Trump Organization.

Trump hefur í áratugi haldið því fram að hann hafi eignast sinn auð án stuðnings frá föður sínum. New York Times birti frétt árið 2018 þar sem sagði að Trump hefði fengið að minnsta kosti 413 milljónir dala, á verðlagi þess árs, frá föður sínum yfir langt árabil. Jafngildir þetta 58 milljörðum króna.

Donald Trump byrjaði viðskiptaferil sinn með föður sínum, Fred Trump, sem fjárfesti að mestu í ódýrara húsnæði í Queens hverfinu í New York.

Fyrsta stórverkefnið

Árið 1975 var New York í niðurníðslu og borgin sjálf mjög nærri gjaldþroti. Við hlið Grand Central lestarstöðvarinnar var Commodore hótelið sem hafði verið byggt af New York Central lestarfélaginu. Hótelið var opnað árið 1919 og mátti muna fífil sinn fegri. Trump tók höndum saman með Pritzker fjölskyldunni, sem átti Hyatt hótelkeðjuna, og keypti hótelið.

Faðirinn Fred hafði mjög góð tengsl við demókratana Abraham Beame borgarstjóra og Hugh Carey ríkisstjóra. Svo góð að Trump fékk niðurfellda alla skatta af byggingunni í 40 ár. Í bók sinni Listinni að semja sem kom út árið 1987 (e. The Art of the Deal) sagði Trump ástæðuna vera fyrir 40 ára samningi: „Vegna þess að ég bað ekki um 50.“

Árið 2016 reiknaði New York Times fjárhæð skattaívilnunarinnar sem borgarstjórinn gaf og þá jafngilti hún 360 milljónum Bandaríkjadala. Þegar skattaafslátturinn rann út í apríl 2020 nam hann um 415 milljónum dala, eða sem svarar 58,1 milljarði króna á árunum fjörutíu.

Árið 1996 slitnaði upp úr samstarfi Trumps og Pritzker fjölskyldunnar sem endaði með kaupum þeirra síðarnefndu á hlut Trump samsteypunnar. Kaupverðið á hlutnum nam 120 milljónum dala.

Donald Trump með Ed Koch, þáverandi borgarstjóra New York borgar, og Hugh L. Carey, þáverandi ríkisstjóra New York ríkis, að skoða fyrirhugaðar framkvæmdir við Commodore hótelið árið 1978.

Keypti Plaza hótelið

Ólíkt föður sínum Fred þá stóð hugur Trump til áberandi bygginga – kennileita á Manhattan. Commodore hótelið var það svo sannarlega. Næsta þekkta byggingin sem hann keypti var Plaza hótelið við Central Park. Trump keypti hótelið árið 1988.

Samkvæmt heimasíðu Trump samsteypunnar var hótelið keypt á 407,5 milljónir dala. Hann tók 300 milljóna dala lán á fyrsta veðrétti og 125 milljóna lán á öðrum veðrétti auk þess sem hann gekkst í sjálfskuldaábyrgð fyrir síðara láninu. Vextirnir voru í kringum 10% fyrstu árin og því þurfti hann um 40 milljónir dala til þess eins að standa undir vaxtabyrðinni.

Donald Trump kom fyrir í kvikmyndinni Home Alone, sem var að hluta tekinn upp á Plaza hótelinu, sem var í eigu Trump.

Árið 1989 vantaði 24 milljónir dala upp á. Dæmið gekk einfaldlega ekki upp enda ekkert eigið fé í eigninni og vextir í hæstu hæðum – á bandarískan mælikvarða.

Aðeins tveimur árum eftir kaupin var hótelið komið í greiðslustöðvun. Greiðslustöðvunin var send inn 2. nóvember 1992. Aðeins 18 dögum síðar var kvikmyndin Home Alone 2 frumsýnd. Þar lék Plaza hótelið stórt hlutverk auk þess sem Trump kom þar við sögu í einu atriðinu.

Tveimur árum síðar, árið 1994, náðust samningar við kröfuhafa. Bankarnir tóku 49% hlut í Plaza. Trump neyddist svo til að selja árið 1995. Söluverðið var 325 milljónir dala og því var mikið tap af viðskiptunum. Líklega yfir 100 milljónir dala, sölutap og rekstrartap áranna sex.

Forbes 400

Árið 1982 birti viðskiptatímaritið Forbes 400 lista sinn yfir ríkustu menn Bandaríkjanna. Trump var þar ásamt föður sínum Fred. Voru þeir metnir saman á 200 milljónir Bandaríkjadala, hvor með 100 milljónir. Árið 2018 upplýsti blaðamaðurinn sem reiknaði út auð Trump, að hann hefði aðeins átt 5 milljónir dala.

Forbes hefur greint frá því ítrekað allt frá árinu 1990 hvernig Trump hefur reynt að ýkja auð sinn og notað til þess margar aðferðir. Sumar ótrúlegar. Hér á eftir koma nokkrar þeirra.

John Barron í fjármáladeildinni

Jonathan Greenberg starfaði sem blaðamaður á Forbes þegar 400 listinn var gefinn út árið 1982. Árið 1984 þegar verið var að taka listann saman hafði Greenberg samband við Trump samsteypuna. Ritari Trumps sagði að Trump sjálfur gæti ekki rætt við hann en John Barron í fjármáladeildinni gæti það hins vegar. Hann hafði starfsheitið varaforseti (e. Vice President) sem þýðir að hann var ekki fjármálastjóri en nokkuð háttsettur.

Greenberg átti tvö löng samtöl við Barron í maí og júlí 1984. Blaðamaðurinn tók bæði samtölin upp á segulband. Hið fyrra var 45 mínútur og seinna var 40 mínútur. Hér má hlusta á brot úr samtali Barron og Greenberg.

Það var ekki fyrr en í apríl árið 2018 sem Greenberg upplýsti um samtölin tvö í grein í Washington Post. Þar segist hann hafa hlustað á upptökurnar skömmu áður og ekki trúað sínum eigin eyrum. Eyrun sem áttuðu sig ekki á því 38 árum áður á því að Barron í fjármáladeildinni var Trump sjálfur.

Meðal þess sem hinn ímyndaði Barron sagði var að Trump hefði eignast nær allan hlut föður síns í Trump samsteypunni og ætti nú næstum allt félagið eða „meira en 90%“. Vegna þess og allrar velgengninnar í fasteignaviðskiptum þá væri Trump ekki milljónamæringur heldur milljarðamæringur – í bandarískum dölum.

Forbes-menn keyptu ekki allt sem Trump sagði en þeir færðu auðæfi hans upp úr 200 milljónum dala í 400 milljónir dala. Að auki mátu þeir föður hans Fred á 200 milljónir dala. Þessi leikþáttur Trumps virkaði.

Í grein Greenbergs í Washington Post er birt hljóðbrot úr viðtalinu. Þó Trump breytti rödd sinni nokkuð er ekki nokkur vafi að þetta er hann.

Hann hafði tveimur árum áður viðurkennt í spjallþættinum The Weeknd að hafa notað önnur nöfn í fasteignaviðskiptum því hann vildi ekki að mótaðilinn vissi hver væri raunverulegur bjóðandi í fasteign. Meðal nafnanna sem hann sagðist nota var Barron.

Kreppa í Bandaríkjunum

Árið 1990 skall á kreppa í Bandaríkjunum. Verðbólga fór vaxandi þegar leið á áttunda áratuginn og árið 1990 fór hún hæst í 6,3%. Seðlabankinn brást við með hækkun vaxta til að stemma stigu við verðbólguna og fóru þeir hæst í 9,9% í mars 1989.

Á sama tíma hækkaði olíuverð vegna innrásar Saddams Hussein í Kúveit. Það voru því óveðurský yfir bandarískum efnahag á þessum árum þó að kreppan hafi formlega ekki varað nema í 8 mánuði. Fasteignamarkaðurinn á Manhattan varð mjög þungur vegna þessa og eignaverð lækkaði mikið sem og eftirspurn eftir húsnæði.

Í maí 2019 fjallaði New York Times um hin mögru ár Donalds Trump. Blaðið hafði þá skattaskýrslur Trumps undir höndum.

Þar kemur fram að hann var farinn að tapa peningum strax árið 1985. Tapið árin 1985-1994 nam samkvæmt gögnunum 1,17 milljörðum Bandaríkjadala á verðlagi hvers árs, eða 164 milljörðum króna á gengi dagsins.

Donald Trump við eðalvagn sinn árið 1973 sem bar einkennistafi hans DJT.

„Ég er ekki auli“

Á þessum tíma hélt Trump hélt því fram að hann væri að græða en ekki tapa. „Ég er ekki auli. Jafnvel þó að heimurinn fari til helvítis í handtösku þá tapa ég ekki krónu,“ hefur stórblaðið eftir honum árið 1988. Árið 1990 sagði hann: „Árið hefur verið gott fjárhagslega.“ Tapið það árið var 400 milljónir dala.

Blaðamenn Forbes höfðu ekki þessar upplýsingar. En Trump féll af Forbes listanum árið 1990 og komst ekki aftur inn á hann fyrr en árið 1996, sama ár og Trump keypti keppnina Ungfrú heimur – sem var auðvitað tilviljun.

Epísk fantasía

Árið 2015 fjallaði Forbes í grein sinni um samskiptin við Trump undir fyrirsögninni „Epíska fantasían sem hefur rekið Donald Trump áfram í 33 ár.“

Í greininni segir að frá því að Trump komst aftur inn á Forbes 400 listann hafi verið tíðir árekstrar milli tímaritsins og hans. Forbes segist nota einkunnarorð Ronalds Reagan við gerð listans: Treysta en sannreyna (e. Trust but verify). Forbes menn segja að Trump veiti tímaritinu meiri upplýsingar en nokkur annar sem er á listanum. Forbes samþykki grundvallaratriðin. En án staðfestingu á eignarhaldi eða skuldastöðu þá gæti tímaritið varúðar þegar það fari yfir upplýsingarnar.

Árið 2014 fékk tímaritið staðfestingu á handbæru fé upp á 307 milljónir dala. Nú heldur Trump því fram að hann eigi 793 milljónir handbærar en vill ekki styðja það með gögnum. Niðurstaða Forbes er 327 milljónir.

Við mat á fasteignum er einnig skoðanamunur milli Forbes og Donalds. Tímaritið byggir á fjárhagslíkönum. En Trump gerir ráð fyrir við sitt verðmat að forríkt fólk komi fram og kaupi eignirnar á háu verði, skipulagsleyfi verði veitt eða klúbbhús verði byggð á golfvöllum hans honum að kostnaðarlausu. Með öðrum orðum þá telur Forbes Trump vera allt annað en raunsæjan.

Það sem mestu munar á mati Forbes og Trumps er vörumerkið Donald Trump. Trump metur vörumerkið á milljarða Bandaríkjadala en Forbes metur það á núll dali. Ástæðan sé sú að virði þess sé innifalið í rekstrinum.

Donald Trump og Ivana Trump í íbúð sinni í Trump turninum.

Lygin um Trump Tower

Forbes fjallaði enn á ný um Trump í lok febrúar í ár undir fyrirsögninni „Donald Trump hefur logið um Trump turninn í áratugi“.

Turninn er þungamiðjan í málsókn saksóknara New York borgar gegn Trump, þremur börnum hans og Trump samsteypunni, sem hófst í september. Segir saksóknarinn að þau hafi svikið lánadrottna sína með því að gefa upp rangar upplýsingar um raunverulega eignastöðu. Fer saksóknarinn fram á 250 milljónir dala í sekt. Að auki rannsakar annar saksóknari ákæru á hendur þeim í refsimáli. Segist hann enn vera að rannsaka málið.

Málaferlin styðja við það sem Forbes hefur haldið fram allt frá árinu 1990. Að Donald Trump segi ekki satt um eignir sínar og skuldastöðu.

Forbes segist í greininni vera með upplýsingar sem gætu hjálpað við rannsókn málsins. Þrennt sé þar mikilvægast.

Fasteignaskrár sýni að Trump hafi logið um fjárhagslega afkomu Trump turnsins frá því að hann var opnaður árið 1983.

Skatta- og lánaskjöl gefi til kynna að Trump hafi logið um fermetrafjölda skrifstofu- og verslunarhluta hússins. Því má ekki rugla saman við stærð íbúðar Trumps sjálfs. Forbes fjallaði um hana árið 2017. Trump hélt því fram að íbúðin væri 3.000 fermetrar. Hún var hins vegar 570 fermetrar í upphafi en rúmir 1.000 fermetrar eftir stækkun.

Hlutar af hljóðupptöku frá 2015 sanna að mati Forbes að Trump hafi persónulega tekið þátt í að ljúga um gildi verslunarrýmis Trump Tower.

„Farsælasta fasteignaþróun síðari tíma“

Árið 1978, þegar Trump var 32 ára gamall, tók hann höndum saman við tryggingarfélagið Equitable Life Assurance Society sem átti land á 5. breiðstræti í New York.

Hann fékk nokkra lánveitendur, þar á meðal föður sinn, til að lána honum 130 milljónir dollara til að byggja skýjakljúf. Fimm árum síðar opnaði Trump Tower. Sjálfur sagði Trump að turninn væri „farsælasta fasteignaþróun síðari tíma“.

Til að styðja yfirlýsingar sínar sagði hann Forbes að hann hefði selt 85% af íbúðunum á 500 þúsund til 12 milljóna dala áður en byggingin hefði verið tilbúin. „Íbúðirnar skila 268 milljónum dollara í hagnaði.“

Hann sagði New York Times sömu tölur sem birtu þær og sömu tölur var einnig að finna í ævisögu Trump sem kom út 1987.

En Forbes segir að tölurnar hafi ekki verið sannar. Ný úttekt sýni að árið 1983, árið sem Trump Tower opnaði, hafi 60% íbúðanna selst, eða 150 íbúðir í byggingunni.

Um 130 þeirra fóru fyrir minna en 500 þúsund dali en sú ódýrasta kostaði aðeins 130 þúsund dali. Sú dýrasta seldist fyrir 2 milljónir dala, einn sjötta af metverðinu sem Trump hafði haldið fram.

Í lok ársins nam salan 45 milljónum dala, sem að mati Forbes var góð byrjun, en langt frá þeim 268 milljóna hagnaði sem Trump hafði haldið fram. Allar íbúðirnar seldust á um 125 milljónir dala, samkvæmt gögnum Forbes.

Donald Trump á skrifstofu sinni á 26. hæð Trump turnsins.

Trump keypti tryggingarfélagið út úr verkefninu árið 1986. Þá voru aðallega eftir verslunar- og skrifstofurými, þar á meðal rými sem hann notaði fyrir sjálfan sig. Hann flutti inn í þakíbúðina ásamt fjölskyldu sinni.

Frá skrifstofu sinni á 26. hæð og í íbúð sinni á 68. hæð stjórnaði Trump viðskiptum sínum og veldi í áratugi.

Mat turninn 500% of hátt

Trump bauð Forbes oft á skrifstofuna í turninn í viðleitni sinni að ýta sér ofar á Forbes 400 listann. Turninn gegndi lykilhlutverki í útreikningnum í áratugi, þar sem skrifstofu- og smásölurými hennar var lengi ein verðmætasta eign Trumps.

„Trump segir 275 milljónir dala“ segir í minnispunktum blaðamanns frá árinu 1997 um virði turnsins. Jafnframt segir í minnispunktunum „Hann hélt eignarhaldi á verslunarrýminu á jarðhæðunum. Trump segir að sá hluti kasti af sér 18 milljónum dollara á ári.“

Á sama tíma voru matsmenn fengnir af hálfu eins viðskiptabanka Trumps til að meta eignina. Þeirra niðurstaða var sú að fasteignin skilaði aðeins um 6,3 milljónum dala af hreinum rekstrartekjum á ári.

Því væri virði eignarhluta Trumps í turninum aðeins 65 milljóna dala virði. Trump ýkti því virðið um 500%.

Donald Trump hafði betur en Hillary Clinton og var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016.
Donald Trump hafði betur en Hillary Clinton og var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2016.
© epa (epa)

Tapaði í forsetatíðinni

Donald Trump féll út af Forbes 400 listanum árið 2021 eftir að hafa verið á honum samfellt frá 1996. Hann fór inn á hann aftur í fyrra og voru þá auðævi hans metin á 3,2 milljarða dala, eða um 430 milljarðar króna.

Forbes gaf út nýjan lista þann 4. apríl, eftir að Frjáls verslun fór í prentun. Auður Trumps er nú metinn á 2,5 milljarða og er hann í 1.247 sæti yfir ríkustu menn heims. Forbes 400 listinn hefur ekki verið uppfærður í ár.

Það er því ljóst að þótt Trump sé ákaflega ónákvæmur í talnaleikfimi sinni þá hefur hann efnast mikið frá því að hann hóf viðskipti fyrir 52 árum síðan.

Trump hóf kosningabaráttu sína í janúar vegna forkosninganna fyrir forsetakosningarnar 2024. Það er óvenju snemmt en ástæðan er ekki síst þau vandræði sem hann er í vegna málaferla og hugsanlegra málaferla.

Stuðningur hans hjá valdamönnum innan Repúblikanaflokksins minnkaði mikið eftir innrásina inn í þinghúsið og eru kosningafundirnir tilraun hans til að sýna styrk sinn.

Greinin birtist í Frjálsri verslun sem kom út 13. apríl. Þar er einnig fjallað um 50 ríkustu Íslendingana. Hægt að kaupa blaðið hér.