Í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á fimmtudaginn er ítarleg umfjöllun um viðskipti Íslendinga við Sovétríkin. Íslendingar voru í samfelldum viðskiptum við kommúnistaríkið frá 1953 fram að falli þeirra 1991.

Einar Benediktsson starfaði hjá Síldarútvegsnefnd frá 1976-1992, fyrst sem aðstoðarframkvæmdastjóri og frá 1988 sem framkvæmdastjóri. Árið 1992 var hann ráðinn forstjóri Olís og starfaði þar í 22 ár.

Árið 1989 tók Frjáls verslun viðtal Einar þar sem hann sagði frá síðustu síldarsamningum við Sovétmenn.

Yfirleitt fara samningaviðræður fram að haustinu í einni eða tveimur lotum sem jafnan taka 3-5 daga.

Síðastliðið haust gengu samningarnir fyrir sig með talsvert óvenjulegum hætti. Þá sátum við fastir í Moskvu í 5 vikur, Gunnar Flóvenz og ég, áður en samningurinn var staðfestur af stjórnvöldum. Samningar náðust eftir 10 daga en þá vantaði staðfestingu sjávarútvegsráðherra Sovétríkjanna. Hann afgreiddi málið ekki og vísaði því til ráðherranefndar.

Ákvörðun beið dag frá degi og okkur var ávallt sagt að svar kæmi væntanlega næsta dag. Við urðum að bíða staðfestingar því heima á Íslandi var vertíð í fullum gangi og því mikið í húfi.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á fimmtudaginn. Hægt er að gerast áskrifandi hér.