Nú liggur fyrir að ríkisstjórn Íslands mun ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Málið er Heiðar skylt því hann var um árabil stjórnarformaður Eykon Energy , sem stundaði olíuleit hér við land. Árið 2015 lýsti hann því að ef allt gengi að óskum gæti olíuvinnsla hafist á svæðinu árið 2025 en nú er beinlínis bannað að leita að olíu við strendur landsins. Sömuleiðis hafa fyrirætlanir eða öllu heldur hugmyndir um byggingu fleiri vatnsaflsvirkjana mætt nokkrum mótbyr.

„Þetta er heimskulegt," segir Heiðar í viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. „Það er svolítið eins og fólk sé fætt í gær og alið upp af sjálfu sér og hafi ekki lesið eina einustu bók um sögu iðnaðaruppbyggingar og velsældar á Íslandi. Ástæðan fyrir því að hér var hægt að byggja virkjanir var að hingað var hægt að sigla með tæki og tól á olíuskipum. Þessi tæki og tól voru olíuknúin og með þeim byggðum við rafmagns- og hitaveitur. Þetta byggir allt á olíunotkun. Við hefðum aldrei getað þetta með skóflum og hestum, það hefði bara aldrei gengið upp.

Við erum að loka Eykon Energy . Við settum umtalsvert fjármagn í olíuleit. Það er olía á Jan Mayen -hryggnum, mögulega allt að tíu til tólf milljarðar tunna. Við ætluðum að fara í boranir við þessa olíulind þegar samstarfsaðilar okkar frá Kína drógu sig út úr verkefninu. Það gerðist á sama tíma og þeim var hleypt aftur inn í Noreg en þar voru verkefni sem komin voru lengra á veg og ég skil því þeirra ákvörðun. Ég skil aftur á móti ekki hvers vegna ríkið ætti að loka fyrir alla olíuframleiðslu á Ísland því eins og ég sagði þá mun sú vinnsla færast á svæði, sem eiga hræðilega sögu í umhverfismálum. Fyrir utan þann þjóðhagslega ávinning sem verið er að fórna með því að banna olíuframleiðslu. Ef þetta hefði gengið upp hjá okkur þá hefði verið að hægt að borga upp allar skuldir ríkisins og lífeyrissjóðir landsmanna tvöfaldast eða þrefaldast en kannski er einhver á móti því."

Við erum orkusóðar

Að sögn Heiðars þarf að ganga vel um orkuauðlindir landsins.

„Við eigum mjög mikið af stýranlegri raforku, sem eru uppistöðulónin okkar, sem margir fjargviðrast yfir. Okkar virkjanir eru í raun eins og batterí, það er hægt að kveikja og slökkva. Það tekur einn til tvo daga að slökkva og kæla niður kola- eða orkuver og einn til tvo daga að keyra þau í gang svo þau framleiði á hagkvæman hátt. Með uppistöðulónunum á Íslandi er á einni sekúndu hægt að kveikja eða slökkva. Jarðvarminn er aftur á móti ekki stýranleg orka. Það er jú hægt að slökkva á framleiðslunni en þá puðrast orkan upp í andrúmsloftið, hún geymist ekki eins og raunin er með uppistöðulónin.

Við erum orkusóðar í þeim skilningi að við erum ekki tengd með rafstreng við önnur lönd. Við getum því ekki selt umframorku til annarra. Þó nú séu orkuskerðingar þá er slíkt undantekning því oftast er næg orka til og uppistöðulón fara yfirleitt á yfirfall, sem þýðir að við erum að sóa orku, sem þegar hefur verið beisluð. Þeir sem eru á móti virkjunum og orku eru um leið á móti hagvexti og velsæld. Þeir sem ímynda sér að hægt sé að vera á móti orkuöflun en með velferð eru ekki að hugsa skýrt því dæmið gengur ekki upp."

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .