Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, var kjörinn í stjórn Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi samtakanna í maí. Lífskjarasamningarnir, sem undirritaðir voru í apríl árið 2019, renna út eftir ár og segist hann hafa töluverðar áhyggjur af því að kjaraviðræðurnar verði þungar.

„Hingað til hef ég ekki mikið verið að skipta mér af þessum málum en ég fór í stjórnina til þess einmitt að taka þátt í þessu,“ segir Eggert Þór. „Ég tel að við þurfum að taka upp nýtt vinnulag í kjarasamningum. Aðilar á vinnumarkaði þurfa að hafa sameiginlegan skilning á því hvað hver atvinnugrein getur gert. Hvað geta fyrirtæki í ferðaþjónustu, verslun eða framleiðslu borgað í laun ef hagvöxtur er 2%, svo ég taki dæmi. Ef þessi sameiginlegi skilningur næst ekki þá endar þetta alltaf í kollsteypum eins og reynslan sýnir.

Ef samið verður á sömu nótum og síðast þá verður að gera það með opnum augun og fólk að vera meðvitað um mögulegar afleiðingar. Ef samið er um óraunhæfar launahækkanir þá kemur nefnilega alltaf að skuldadögum, sem felast í því að verðbólgan fer af stað, gengi krónunnar lækkar eða atvinnuleysi eykst. Nú segir verkalýðsforystan að vegna vaxtahækkana þá verði að gera meiri kröfur um launahækkanir en það er algjörlega órökrétt því hærri vextir bitna líka á fyrirtækjunum. Þetta eru sömu vextirnir. Alþýðusamband Íslands segir að það sé nóg til. Það er kannski nóg til hjá einhverju eignafólki en það hefur ekki áhrif á rekstur fyrirtækjanna.

Það þarf að finna nýja leið og aftur komum við að hagtölugerð. Það þarf að liggja fyrir raunhæf spá, sem gerir ráð fyrir mismunandi sviðsmyndum. Ef hægt væri að ná sáttum um að nota slíka spá sem grunn í kjaraviðræðum þá væri það til mikilla bóta. Ef það er fimm stiga hiti úti þá er fimm stiga hiti. Það þarf engan fund um það. Fólk þarf að átta sig á því hvað er til skiptanna.

Sömuleiðis væri það mikið framfaraskref ef samstaða næðist um að horfa á þolmörk fyrirtækja eftir atvinnugreinum. Fyrirtæki eru nefnilega ólík. Í veitingageiranum fara 70% af tekjum í laun en hjá Festi 50%. Sem dæmi þá kostar það Festi mörg hundruð milljónir ef laun eru hækkuð um 5% og þeir peningar eru ekki sóttir í „money heaven“. Við þurfum annaðhvort að hækka vöruverð eða fækka fólki. Það eru bara þessar tvær leiðir. Þessi skilningur verður að vera til staðar ef ná á skynsamlegri lendingu í kjarasamningum.“

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .