Hlutabréfaviðskipti eru að komast aftur í tísku eftir að almenningur hafði forðast hlutabréf að mestu frá bankahruni. Lækkun vaxta og uppsöfnun sparnaðar í faraldrinum hefur leitt af sér að fjöldi einstaklinga hefur leitað inn á hlutabréfamarkaðinn í von um ávöxtun. Fjórfalt fleiri einstaklingar eiga skráð hlutabréf en árið 2019, eða um 30 þúsund manns og meðalfjöldi viðskipta á dag hefur einnig snarlega aukist.

Leigubílstjórar og fjölskylduboð

Gömul klisja segir að þegar leigubílstjórar vilja ræða hlutabréfafjárfestingar við farþega sé tímabært að selja hlutabréfin — verðhrun hljóti að vera í aðsigi. Hér á landi hafa síður og hópar á samfélagsmiðlum sprottið upp til að ræða hlutabréfafjárfestingar og hagfræðingar eru á ný yfirheyrðir í fjölskylduboðum um hvort rétt sé að kaupa eða selja í hinu og þessu félagi.

Er þetta áhyggjuefni eða er það eðlilegur hlutur að almenningur ráðstafi hluta af sparnaði sínum í hlutabréf í stað þess að setja allt í steinsteypu eða á bankabók?

Hlutfall Íslendinga sem eiga beint hlutabréf er enn ekki nema 8% og var það hlutfall um tvöfalt hærra árið 2007. Til samanburðar segjast meira en helmingur Bandaríkjamanna eiga hlutabréf. Þó eru hér ótalinn óbein réttindi Íslendinga í gengum lífeyrissjóðina sem eiga um 40% af íslensku kauphöllinni og svo þá sem fjárfest hafa í hlutabréfasjóðum.

Fjallað er um íslenskan hlutabréfamarkað í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun gaf út nýlega.