Antti Herlin er ríkasti maður Finnlands og 22. ríkasti maður Skandianvíu.

Auður hans er metinn á 4,1 milljarð dollara eða um 570 milljarða króna, sem þýðir að hann situr í 667. sæti Forbes-listans yfir ríkasta fólk veraldar.

Antti er fæddur árið 1956. Hann er aðaleigandi finnsku fyrirtækjasamsteypunnar Kone sem er helst þekkt fyrir að framleiða lyftur og rúllustiga. Hjá Kone starfa 63 þúsund manns í 60 löndum.

Ættin stýrt Kone í 99 ár

Yfirráð yfir Kone hafa gengið mann af manni í fjórar kynslóðir í Herlin-ættinni. Langafi Antti, Harald Herlin keypti Kone árið 1924. Heikki H. Herlin, afi Antti, tók við stjórnartaumunum í félaginu árið 1932 og stýrði því fram til ársins 1964. Þá færðust völdin í Kone til Pekka Herlin, föður Antti, sem hélt um og stýrði félaginu til ársins 1996, en þá tók Antti við sem forstjóri.

Harald tókst að nútímavæða Kone og gera að einu af stærstu fyrirtækjum Finnlands. Hluti af stríðsskaðabótum finnskra stjórnvalda eftir seinni heimsstyrjöldina til Sovíetríkjanna var greiddur með lyftum og krönum frá Kone. Eftir að stríðsskaðabæturnar höfðu verið greiddar upp héldu Sovétríkin áfram að kaupa vörur frá Kone.

Stóra stökkið í sögu Kone var árið 1968 þegar það keypti sænska lyftuframleiðandann ASEA, sem var þónokkuð stæra félag en Kone. Með kaupunum varð fyrirtækið stærsti lyftuframleiðandi í Norður-Evrópu. Á síðustu áratugum hefur fyrirtækið keypt upp fjölmörg fyrirtæki í lyftubransanum og tengdum greinum. Árið 2002 keypti Kone á ný fyrirtæki sem var stærra en það sjálft, finnsku fyrirtækjasamsteypuna Partek.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kemur út fimmtudaginn 13. apríl. Þar er m.a. fjallað um ríkustu Íslendingana. Hægt er að kaupa eintak af blaðinu eða gerast áskrifandi hér.