Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út fyrir skömmu. Áður en hún tók við stjórntaumunum í Viðskiptaráði hafði hún starfað á vettvangi stjórnmála um langt skeið, lengst af sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Hún kveðst í störfum sínum tengdum stjórnmálunum hafa fengið að kynnast bæði góðu og slæmu hliðum stjórnsýslunnar. „Í starfi aðstoðarmanns ráðherra er maður tengiliður við allskonar fólk sem hefur þurft að leita sér ýmiss konar aðstoðar hjá ríkisstofnunum. Ég reyndi að sinna því eins vel og ég gat þegar fólk leitaði til mín og áttaði mig á því í þessum málum hve ósveigjanlegt ríkiskerfið getur stundum verið."

Hún kveðst m.a. vera mjög hugsi yfir verkaskiptingu milli ráðuneyta og hvernig haldið sé utan um hlutina. „Það versta sem maður lendir í er að vera með erindi, eða jafnvel bara hugmynd, sem lendir á mörkum tveggja eða þriggja ráðuneyta. Þegar mál þarf atbeina meira en eins ráðuneytis verður það oft mjög flókið og erfitt, sérstaklega þegar það er ekki skýr ábyrgð á verkinu hjá einu ráðuneyti. Ég væri mjög mikið til í að taka þessa skipan í stjórn sýslunni og stokka hana svolítið upp og gera hana skýrari, þannig að hún mæti algengustu þörfum fólks. Þarfir fólks eiga frekar að ráða því hvernig stofnanir eru uppbyggðar, en ekki hvaða ráðherra er með hvaða málaflokk," segir Svanhildur og nefnir Stafrænt Ísland sem dæmi um verkefni sem ætlað er að greiða úr þessari flækju.

„Stafrænt Ísland var sett á fót meðan ég vann í fjármálaráðuneytinu. Það verkefni er uppspretta hugmynda sem miða að því að nálgast stjórnsýsluna sem þjónustu sem væri hugsuð út frá notandanum. Auk þess er farið að gera þjónustukannanir hjá stofnunum þar sem notandinn er spurður um álit sitt á þjónustunni. Þannig er hægt að lagfæra þá hluti sem viðskiptavinir benda oftast á að megi bæta."

Svanhildur bendir jafnframt á að reka mætti stofnanir og aðrar rekstrareiningar á vegum hins opinbera meira eins og fyrirtæki á almenna vinnumarkaðnum.

„Starfsumhverfi opinberra starfsmanna er allt annað en hjá fólki sem starfar á almennum vinnumarkaði, sem getur lent í því að missa vinnuna þegar reksturinn gengur ekki nógu vel. Aftur á móti gerist það mjög sjaldan hjá hinu opinbera og opinberir starfsmenn vita að þeir munu alltaf fá launin sín greidd. Starfsöryggið er því verulegt og eitt af því sem brýnt væri að skoða núna er að ráðast í breytingar á 25 ára gömlum lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þessi lög veita ríkisstarfsmönnum mjög mikla vernd í starfi, sem þótti nauðsynlegt þegar þau voru sett, en ég á samt sem áður erfitt með að sjá fyrir mér þann stjórnmálamann sem kæmi inn í ráðuneyti eða stofnun og bolaði burt hæfu starfsfólki sem væri starfi sínu vaxið. Þeir vilja auðvitað fremur hafa sérfræðinga sem eru góðir á sínu sviði áfram í vinnu, því þeir búa yfir mikilvægri þekkingu og stofnanaminni. En stundum hef ég hugsað til þess hvað það myndi gera mikið fyrir starfsemi ríkisins ef starfsmannamálin væru líkari því sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Þannig yrði meiri sveigjanleiki í ríkisrekstrinum, bæði fjárhagslega og verkefnalega, til þess að bregðast við þörfum hvers tíma."

Svanhildur bendir einnig á að með því að jafna þessa stöðu milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins mætti stuðla að meira flæði á milli þeirra svo að þekking gæti reglulega flust á milli hins opinbera og viðskiptalífsins. „Maður fann það þegar fólk kom frá fyrirtæki á almenna vinnumarkaðnum og fór að vinna inni í ráðuneyti að það fylgdi þessu fólki ferskur andblær. En að sama skapi gat það komið því á óvart hvað það er mikið vinnuálag inni í ráðuneytunum. Oft er talað um að ríkisstarfsmenn geri ekki neitt í vinnunni en það er rangt. Á tíma mínum í ráðuneytunum var vinnudagurinn oft mjög langur og ég varð ekki vör við að starfsfólki þætti það sérstakt tiltökumál."

Hún segir þá staðreynd að hið opinbera hafi að undanförnu nær alfarið staðið undir fjölgun starfa í atvinnulífinu vera mikið áhyggjuefni. „Þegar við skoðum stuðningsstuðul atvinnulífsins, sem sýnir hve mörgum opinberum störfum almenni vinnumarkaðurinn stendur undir, er áhugavert að sjá að störfum á Íslandi er farið að fjölga á ný, en þessi fjölgun hefur nær eingöngu komið frá hinu opinbera. Í einkageiranum hefur átt sér stað sáralítil eða engin fjölgun, sem er mikið áhyggjuefni."

„Auðvitað er markmiðið að auka framleiðni og þegar horft er á vinnumarkaðinn held ég að verkalýðshreyfingin sé meðvitað eða ómeðvitað að hraða þeirri þróun með því að krefjast verulegra launahækkana. Til þess að geta staðið undir hærri launum þarf að auka framleiðnina, sem sagt að ná meiri verðmætum út úr færra fólki. Miklar launahækkanir geta því unnið gegn fjölgun starfa og ýmis fyrirtæki hafa þurft að að fækka starfsmönnum vegna aukins launakostnaðar og finna nýjar lausnir til þess að draga úr starfsmannaþörf," bætir Svanhildur við.

Því megi spyrja sig hvort þessi þróun þurfi ekki einnig að eiga sér stað hjá hinu opinbera. „Þar höfum við séð miklar launahækkanir, en þær hafa ekki leitt til hins sama og á almenna vinnumarkaðnum; að það sé færra fólk að standa undir vinnunni. Það eru auðvitað vissar stéttir sem fylgja mannfjöldaþróun og eiga að gera það, eins og til dæmis kennarar. En við þurfum að fylgjast með þessum málum og halda þeim á lofti, því það er ekkert sem segir að opinberum störfum þurfi að fjölga stöðugt ef það sama er ekki að gerast á almenna vinnumarkaðnum."

Svanhildur leggur þó áherslu á að hún sé ekki að halda því fram að það fari ekki fram nein verðmætasköpun hjá hinu opinbera. „Hið opinbera getur verið jarðvegur og stuðlað að aukinni verðmætasköpun með ákveðnum aðgerðum. Að meginstefnu til er það þó þannig að stærsti hluti þeirra verðmæta sem standa undir þeim frábæru lífskjörum sem við búum við á Íslandi er búinn til á almennum vinnumarkaði."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .