Fjölskylda Helga Magnússonar aðaleiganda Fréttablaðsins seldi hlut sinn í Hörpu Sjöfn árið 2004. Þá átti fjölskyldan 77% hlut í félaginu. Þóra Guðrún Óskarsdóttir, dóttir eins stofnanda Hörpu og fjölskylda hennar, áttu 23%.

Keypti árið 1961

Magnús Helgason, faðir Helga, og fjölskylda keyptu 60% hlut í Hörpu árið 1961 og tók Magnús þá við sem framkvæmdastjóri. Harpa sameinaðist Sjöfn á Akureyri árið 2001 en eigendur Hörpu keyptu fyrrum eigendur Sjafnar út úr félaginu árið 2002.

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra, Halldór Blöndal forseti Alþingis og Vilmundur Jósefsson formaður SI voru viðstödd þegar sameiningin var kynnt, auk Helga og Baldurs Guðnasonar framkvæmdastjóra Sjafnar.

Magnús gegndi starfi framkvæmdastjóra til 1992 þegar Helgi Magnússon tók við. Helgi hafði þá verið ritstjóri Frjálsar verslunar í fimm ár en þar á undan starfaði Helgi sem endurskoðandi. Hann var framkvæmdastjóri fram að sölunni árið 2004.

Um helmingur framleiðslunnar

Árið 1979 var ítarleg umfjöllun í Frjálsri verslun um viðskipti íslenskra fyrirtækja við Sovétríkin. Þeirra á meðal var málningarverksmiðjan Harpa og var Magnús Helgason tekinn tali.

Málningarverksmiðjan Harpa hefur selt málningu á markað í Sovétríkjunum frá því árið 1965. Þá voru seldar 250 þúsund eins lítra dósir af hvítu lakki. Harpa hefur síðan afgreitt þangað málningu á hverju ári og í mars s.l. var gerður samningur um sölu á 1000 tonnum af hvítu lakki til Sovétríkjanna. Skiptist þetta magn á milli málningarverksmiðjunnar Hörpu sem framleiðir 650 tonn og málningarverksmiðju Sambandsins Sjafnar, sem framleiðir 350 tonn.

Magnús Helgason sagði, að fyrir um það bil átta árum hefðu viðskiptin við Sovétríkin aukist nokkuð, eða í 1000—1200 tunnur af málningu á ári. Stærsta pöntunin hefur verið 5000 tunnur af málningu í einum lit, þ.e. hvítu

Í málningarverksmiðjunni Hörpu hf, er unnið þrjá til fjóra mánuði á ári við útflutningsframleiðsluna, en að magni til er þessi framleiðsla um helmingur af heildarframleiðslu Hörpu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á fimmtudaginn. Hægt er að gerast áskrifandi hér.