Netverslun hefur verið í örum vexti síðustu ár, en tók talsvert stökk umfram þá þróun í ár þegar heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á heimsbyggðina og fólk neyddist til að einangra sig sem mest og forðast mannmergð eftir bestu getu, meðal annars í verslunum.

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins nam heildarvelta í netverslun tæpum 75 milljörðum króna og jókst um 15% milli ára, en mest var hækkunin milli ára á fyrsta ársfjórðungi, þegar veltan nam tæpum 25 milljörðum og aukningin rúmum 22%.

Samhliða mikilli veltuaukningu og auknu hlutfalli netverslunar af smásöluverslun hafa orðið breytingar á kauphegðun fólks, auk þess sem söluaðilar hafa kappkostað að uppfæra viðmót sitt og þjónustu í netverslun að öðru leyti.

Búast má við að hin mikla aukning og þær breytingar sem átt hafa sér stað í netverslun vegna faraldursins séu að verulegu leyti komnar til að vera. Margir hafa tileinkað sér netverslun mun fyrr vegna faraldursins en þeir annars hefðu gert, og eru nú komnir upp á lagið með það, auk þess sem fjárfesting í innviðum og viðmóti þeirra verður áfram til staðar.

Lengi verið eftirbátar samanburðarlanda
Þrátt fyrir mikla aukningu í netverslun hér á landi síðustu ár, hefur netverslun verið mun lægra hlutfall af smásöluverslun hér en í okkar helstu samanburðarlöndum. „Þessi aðferð við að eiga viðskipti er mun seinni að ryðja sér til rúms hér en á hinum Norðurlöndunum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka Verslunar og þjónustu.

Eftir að heimsfaraldurinn skall á hefur hins vegar orðið stórt stökk fram á við í þessum efnum að hans sögn, ekki síst í því viðmóti sem tekur á móti neytendum í netverslunum landsins. „Nú eru fyrirtækin að spýta í lófana. Á þessum átta mánuðum síðan faraldurinn byrjaði hafa íslensku fyrirtækin virkilega tekið sig á í þessum efnum, og viðmótið sem maður mætir hefur gjörbreyst,“ segir Andrés, en hann segir alveg ljóst að sú aukning netverslunar sem þær umbætur hafi skilað, sé varanleg.

Mesta breytingin aukin dagvörukaup
Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa, tekur í sama streng og segir mestu breytinguna af völdum faraldursins í netsölu tvímælalaust vera aukna sölu dagvöru. „Þar er langmesta breytingin, það er klárt mál. Ég get svona nánast lagt smitkúrfuna ofan á sölutölur í dagvörunni, það er alveg svakalega mikil fylgni þar á milli.“

Hjá fyrirtækjum eins og Heimkaupum, sem selji ekki aðeins dagvöru heldur einnig mikið úrval sérvöru, segir Guðmundur svo greinilegt að þegar keypt sé dagvara haldi margir áfram yfir í sérvöruna líka. „Þú ert byrjaður að kaupa í matinn og næst eru það jólagjafirnar. Þetta er bara svo auðvelt næsta skref.“

Guðmundur gerir ráð fyrir að margir sem hafi ekki verið búnir að tileinka sér netverslun fyrir faraldurinn, en neyðst til þess í vor þegar hann skall á, hafi nú keypt sérvöru á degi einhleypra (e. singles‘ day, þann 11.11) í fyrsta sinn. „Kannski hefði þetta fólk farið í að kaupa á netinu einhvern tímann seinna, en þetta ýtti bara mjög mörgum á netið á mjög skömmum tíma. Við höfum talað um að við höfum farið kannski eins og þrjú ár fram í tímann.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .