Eftir tæplega sjö milljarða sölu á óvirkum farsímainnviðum til bandaríska fjarskiptafélagsins Digital Bridge í desember greiddi Sýn upp langtímalán fyrir tvo milljarða króna og hóf endurkaup á eigin bréfum. Stefnir félagið að því að kaupa eigin bréf fyrir allt að tvo milljarða króna.

„Það segir sig sjálft að ef okkur fyndist eigin bréf vera dýr þá myndum við ekki kaupa þau en við stefnum að því að kaupa meira ef fram fer sem horfir,“ segir Heiðar. Við munum væntanlega selja meira af innviðum frá okkur og þá myndast ráðrúm til þess að kaupa meira af eigin bréfum.“

Digital Bridge keypti um 200 sendastaði frá Sýn. Samhliða viðskiptunum var gerður langtímasamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang seljenda að hinum óvirku farsímainnviðum en allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar. Nova gerði sams konar samning um sölu en Síminn, með sölu á Mílu, er að selja að mestu leyti virkan fjarskiptabúnað, sem sagt tæknibúnað.

Hefur þessi sala sætt gagnrýni og þá aðallega út frá þjóðaröryggisástæðum. Þjóðaröryggisráð hefur fundað um sölu á fjarskiptainnviðum og á Alþingi hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp, sem tekur á erlendri fjárfestingu í fjarskiptainnviðum. Í greinargerð segir að frumvarpið sé til komið vegna endurmats stjórnvalda á áætlunum og viðbúnaði í kjölfar orðinna og mögulegra breytinga á eignarhaldi fjarskiptainnviða, svo sem fjárfestinga erlendra aðila í grunnvirkjum og fjarskiptaþjónustu hér á landi. Ennfremur segir: „Ljóst er að fjarskiptanet og fjarskiptaþjónusta eru undirstaða margvíslegrar samfélagslegrar og efnahagslega mikilvægrar starfsemi og frumskylda ríkisvaldsins að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi og áreiðanleika fjarskipta á landinu með tilliti til þjóðaröryggis og almannahagsmuna.“

Fjarskiptafélögin hafa gagnrýnt að samkvæmt frumvarpinu fái ráðherra óheft vald til þess að svipta félögin eignarétti. Í frumvarpinu segir að ráðherra geti bundið erlenda fjárfestingu skilyrðum í því skyni að koma í veg fyrir að hún geti ógnað öryggi landsins, gengið gegn allsherjarreglu, almannaöryggi. Einnig segir að ef brotið sé gegn skilyrðum sem ráðherra hafi sett hafi hann heimild til að láta hlutaðeigandi erlenda fjárfestingu ganga til baka að viðlögðum dagsektum.

Í umsögn Sýnar við frumvarpið er áréttað að salan á óvirkum farsímainnviðum sé frágengin og tímafrestir til íhlutunar löngu liðnir. Fyrirhuguð sala hafi verið tilkynnt til Kauphallarinnar 1. apríl í fyrra. Nefnd fjögurra ráðuneyta hafi skoðað fjárfestinguna og ekki talið ástæðu til íhlutunar. Auk þessa hafi ráðherra gefið út leyfisbréf vegna fjárfestingarinnar og Samkeppniseftirlitið samþykkt samrunann. Endanlegt uppgjör vegna viðskiptanna hafi farið fram 14. desember síðastliðinn. Ef reynt verði nú að láta þá fjárfestingu ganga tilbaka sé ljóst að slík væri andstæð stjórnarskrá, sem og hefðbundnum sjónarmiðum um lagaskil og bann við afturvirkni laga.

Góð viðskipti

Heiðar segir viðskiptin við Digital Bridge hafi verið góð fyrir Sýn.

„Við erum selja óvirku innviðina fyrir hátt í 30 sinnum EBITDA en okkar fyrirtæki er metið á fjórum sinnum EBITDA .,“ segir hann „Ef til vill trúði enginn því að við gætum fengið svona stóran alþjóðlegan aðila til að fjárfesta hér og selt á þessu verði og þess vegna tók markaðurinn ekki við sér fyrr en staðfest var að viðskiptin myndu ganga í gegn. Þessi verð hafa aftur á móti verið í gangi á þessum alþjóðlega markaði mjög lengi. Þegar verðlagningin á þessum innviðum er jafn há og raun ber vitni þá á auðvitað að selja þá og nota peninginn til að fjárfesta í eigin rekstri. Ef verðið helst svona hátt þá finnst okkur alveg kjörið að selja meira af innviðum til þess að fjárfesta í eigin rekstri.“

Að sögn Heiðars tengist áhugi þessara erlendu fjárfesta á íslenskum innviðum þróuninni á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

„Alþjóðlegir vextir hafa verið í útrýmingarhættu. Það hafa verið neikvæðir raunvextir víðast hvar undanfarin ár. Þetta hefur þrengt að aðilum sem eru með mjög stífan fjárfestingarramma og þurfa að fjárfesta til langs tíma. Þess vegna hafa þeir horft í ríkara mæli á innviði vegna þess að áhættan af slíkri fjárfestingu er svipuð og af ríkisskuldabréfum en munurinn er að þeir eru að fá eitthvað tilbaka í formi leigutekna á meðan ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur lækkað mikið og er í mörgum tilvikum neikvæð.“

Hversu óvirkir eru innviðirnir?

Varðandi sölu á óvirkum innviðum þá hafa gagnrýndur gjarnan spurt hversu óvirkir þeir séu ef fjarskiptafyrirtækin leigi þá tilbaka .

„Þetta er bara stál og steypa,“ segir Heiðar. „Höfuðstöðvar okkar eru í húsi sem að Eik á og þá gæti alveg eins einhver sagt að það væri þjóðaröryggismál því í húsinu er kjarninn fyrir allan okkar fjarskiptarekstur, alla okkar útvarps-, sjónvarps- og netdreifingu. Að því sögðu þá erum við auðvitað með tvo aðra kjarna til að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni. Þetta er samt eins og einhver hefði gríðarlegar áhyggjur af því hver eigi þetta hús. Sá sem á húsið hefur ekkert með tæknibúnaðinn að gera og sá sem á mastur, sem við erum með tæknibúnað á, hefur ekkert um þann búnað að segja.“

En þið getið flutt í nýtt hús? „Við getum byggt nýtt mastur“.

Spurður hvort leiguskuldbindingar óvirku innviðanna muni hafa neikvæð áhrif á reksturinn þegar fram líða stundir svarar Heiðar: „Nei. Núna vorum við að selja um 200 möstur en við erum með um 600 sendastaði í rekstri. Út frá þeim mælikvarða vorum við að selja einn þriðja. Með 5G , 6G og 7G þá þurfum við að byggja miklu fleiri möstur og fjölga sendastöðum þannig að það er ekki eins og við höfum verið að selja hjartað úr okkar starfsemi. Við vorum að selja ákveðinn hluta vegna þess að okkur fannst verðið fáránlega hátt miðað við verðið sem við erum metin á á markaði.“

Heiðar nefnir að Sýn hyggist selja fleiri innviði en hvaða innviðir eru það?

„Við erum að skoða að selja svokallað IPTVkerfi , sem myndlyklarnir okkar keyra á. Við höfum einnig tala um að selja hluta af gagnaflutningskerfinu okkar, það er fastlínukerfið okkar, sem við rekum á um 800 stöðum í kringum landið. Það er sóun að reka svona mörg grunnkerfi. Það er samfélagslega ábyrgt að fækka þessum kerfum og þjóðhagslega hagkvæmt vegna þess að samkeppnin er ekki í kerfunum. Þegar fólk er að velja sér fjarskiptafélag þá sér það ekki að eitt félag sé með hraðara internet en annað. Það er ekki þannig. Þetta er eitt og hið sama. Það er hægt að spara stórfé og minnka áhættuna með því að búa til heilsteypt færri kerfi frekar en að vera með mörg lítil ósamstæð,“ segir Heiðar og bætir við að mögulega gæti Sýn selt innviði fyrir sex milljarða króna á þessu ári. „Það er varfærnislegt mat.“

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .