Íslenska sprotafyrirtækið PayAnalytics gefur út hugbúnað sem reiknar launabil kynjanna og annarra lýðfræðilegra hópa, líkt og þjóðerni, og kemur svo með tillögur um hvernig loka skuli launabilinu á hagkvæman og sanngjarnan hátt. Mannauðsstjórar og stjórnendur nota kerfið við launaákvarðanir, t.d. vegna nýráðninga eða stöðuhækkana. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að launabilið aukist aftur.

Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi PayAnalytics, áætlar að hugbúnaðurinn sé notaður til að greina laun hjá 25% af vinnuaflinu á Íslandi, hvort sem það er notað innan fyrirtækja eða af ráðgjafafyrirtækjum. Hún telur að markaðstækifærið fyrirtækisins sé mikið, sér í lagi vegna síbreytandi lagaumhverfis víðs vegar um heiminn sem geri það að verkum að fleiri og fleiri fyrirtæki eru að taka sín fyrstu skref í að greina launaumgjörðina sína. Hugbúnaðurinn er í boði á sex tungumálum og er notaður í 40 löndum í öllum heimshornum, þar á meðal víða í Evrópu, í Bandaríkjunum, Ástralíu, Sádi-Arabíu og Kína.

Árlegar áskriftartekjur PayAnalytics hafa vaxið 133% árlega frá árinu 2018, þegar fyrsta skýjalausnin var gefin út, og eru yfir 600 þúsund dalir í dag. Fyrirtækið vinnur leynt og ljóst að því að ná milljón dölum í árlegar áskriftartekjur í náinni framtíð.

PayAnalytics hefur fengið 135 milljónir króna í fjármögnun frá stofnun. Þar af eru 70 milljónir króna í styrk frá Tækniþróunarsjóði sem samanstendur af 50 milljóna króna styrk frá Vexti árið 2018, sem Margrét lýsir sem „gamechanger“, og tveir 10 milljóna króna markaðsstyrkir árin 2019 og 2020. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti svo 65 milljónum króna í fyrirtækinu í janúar 2020.

Gekk illa að loka launabilinu

PayAnalytics hófst sem rannsóknarverkefni hjá Margréti, sem er dósent við University of Maryland, og David Anderson, lektor við Villanova University, en þau eru bæði með doktorsgráðu í aðgerðagreiningu. Þá hafði framkvæmdastjóri íslensks fyrirtækis sem Margrét þekkir ætlað að bregðast við 8% launabili með því vera meðvitaður um það við allar launaákvarðanir. En ári síðar var bilið óbreytt.

Hún og David þróa í kjölfarið algrím og fara með lausnina í frumkvöðlakeppnina Gulleggið árið 2016 og stóðu uppi sem sigurvegarar. Svo slást núverandi framkvæmdastjóri, Sigurjón Pálsson, og tæknistjórinn Garðar Hauksson með í hópinn rúmu ári síðar. Guðrún Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar, kom svo inn í stjórnendateymið árið 2019 en hún leiðir útrás fyrirtækisins. Starfsmenn fyrirtækisins eru í dag fjórtán talsins í tíu stöðugildum.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .