Þrátt fyrir þann tíðaranda sem margir muna eflaust enn vel eftir árið 2007 tók hlutdeild innlendra hlutabréfa í eignasafni lífeyrissjóðanna að dala strax með hitastiginu það haustið og fór undir fimmtung sumarið eftir.

Ekki sneri hrunið þeirri þróun við, og í ársbyrjun 2010 náði hlutfallið lágmarki í 5,8% eftir 82% verðfall frá hápunktinum minna en þremur árum fyrr.

Þrátt fyrir stjarnfræðilega verðlækkun var hlutdeild lífeyrissjóðanna í heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni hins vegar orðin þónokkru hærri en árið 2007; markaðurinn í heild hafði dregist enn meira saman.

Þegar slíkum botni er náð eiga jafnvægissæknar efnahagsstærðir það til að leita upp á við á ný, og innlendu hlutabréfin voru komin aftur í tveggja stafa prósentu af eignasafni sjóðanna árið 2012.

Þótt vöxtur innra hlutfalls skráðu innlendu bréfanna væri nokkuð hóflegur næstu árin var aukningin langt umfram markaðsvirðisþróunina í Kauphöllinni. Á innan við þremur árum stökk hlutdeild lífeyriskerfisins í skráðum innlendum hlutabréfum úr tæpum 15% í tæp 50%, og hefur haldist á þeim slóðum allar götur síðan.

Fréttin er hluti af lengri úttekt á eignarhaldi lífeyrissjóðanna í Kauphöllinni í gegn um tíðina í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní. Hægt er að gerast áskrifandi hér.