Eftir uppgangsár sem einkenndust af fjölgun ferðamanna fór að hægja á vexti hagkerfisins árið 2018 og gengi krónunnar að gefa eftir. Meðal annars var það vegna óvissu um stöðu og framtíðarhorfur flugfélagsins Wow Air sem féll í mars árið 2019.

Glögglega má sjá áhrif kólnunar hagkerfisins í grafinu um miðgildi arðsemi eigin fjár eftir atvinnugreinum sem birtist í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar og má sjá hér að neðan.

Þannig er afkoma fyrirtækja í flestum atvinnugreinum farin að versna árin 2018 og 2019 frá hápunkti ferðamannahagsveiflunnar árin 2016-2017. Ekki þarf svo að fjölyrða um áhrif heimsfaraldursins, sér í lagi á ferðaþjónustuna sem róið hefur lífróður undanfarin tvö ár.

Um leið sjást áhrif aukinna umsvifa í smásölu og heildsölu á faraldursárinu 2020 í afkomu fyrirtækja í þeim greinum. Vexti ferðaþjónustunnar fylgdu afleidd áhrif á aðrar greinar, sér í lagi útflutningsgreinar eftir því sem krónan styrktist. Afkoma sjávarútvegsfyrirtækja batnaði töluvert á milli áranna 2017 og 2019 samhliða því að gengi krónunnar veiktist.

Athygli vekur að afkoma byggingargeirans versnar ár frá ári. Eflaust spila margir þættir þar inn í á borð við umfang framkvæmda í hagkerfinu, til að mynda fjölda íbúða í byggingu, gengi krónunnar sem hefur áhrif á aðfangaverð og hækkandi launakostnaður.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .