Í lok árs 2021 störfuðu 74 apótek Í hér á landi auk sjúkrahúsapóteks Landspítalans. Ríflega 46% apóteka landsins eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Næst kemur Norðurland með 17% apóteka, Suðurland með 11% og Vesturland og Vestfirðir með 10%.

Algengast er að apótekin séu opin frá 9 á morgnana til 6 eða 7 á kvöldin. Mörg hver bjóða þó upp á lengri opnun, eins og Lyfja á Granda sem er opið alla daga til miðnættis. Þá eru apótek sem starfa í þéttbýliskjörnum úti á landi sem sinna mikilvægu hlutverki viðkomandi samfélaga. Þess má geta að elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu er Siglufjarðar Apótek, en það var stofnað árið 1928.

Lyfja og Lyf og heilsa stærstu lyfsalarnir

Lyfja hf. og Lyf og heilsa hf. eru stærstu apótekskeðjurnar hér á landi.

Velta Lyfju hf. nam 14 milljörðum króna á síðasta ári, en hún hefur aukist um 56% frá árinu 2018 þegar fjárfestingafélagið SID keypti félagið. SID er í 70% eigu framtakssjóðsins SÍA III slhf. sem er í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka. Fjárfestarnir Daníel Helgason og Ingi Guðjónsson eiga 15% hlut í Lyfju hvor um sig í gegnum félög sín, Þarabakka ehf. og Kask ehf., en Ingi er annar stofnenda Lyfju sem hóf starfsemi árið 1996.

Lyfja hagnaðist um 520 milljónir króna á síðasta ári, en hagnaðurinn hefur aukist um 60% frá árinu 2018 þegar hann nam 325 milljónum. Eigendur Lyfju ætlaðu að selja allt hlutafé í félaginu síðla árs 2021, en tilboð sem bárust reyndust talsvert undir þeim væntingum sem hluthafar apótekskeðjunnar höfðu gert sér um virði félagsins, að því er kemur fram í grein Innherja.

Lyf og heilsa fylgir fast á hæla Lyfju með 10,3 milljarða króna veltu á síðasta ári. Lyf og heilsa rekur fjölda apóteka undir merkjum Apótekarans og Lyfja og heilsu. Hagnaður félagsins nam 461 milljón króna á síðasta ári.

Samanlagður hagnaður tveggja stærstu lyfsalanna, Lyfju og Lyfja og heilsu, nemur 63% af samanlögðum hagnaði allra lyfsala sem eru á listanum hér til hliðar. Þá nam velta félaganna tveggja á síðasta ári um 66% af samanlagðri veltu allra lyfsala á listanum.

Tveir stórir lyfsalar sameinuðust á síðasta ári þegar Lyfsalinn, sem er í eigu SKEL fjárfestingafélags, keypti Lyfjaval. Við kaupin sameinuðust öll apótek Lyfsalans undir nafni Lyfjavals. Samanlögð velta Lyfsalans og Lyfjavals nam 2,3 milljörðum króna í fyrra, sem gerir fjórða stærsta lyfsala landsins.

Samanlögð velta fimm stærstu lyfsalanna, Lyfju, Lyfja og heilsu, Lyfjavers, Lyfjavals og Akureyrarapóteks, nam 30,2 milljörðum króna á síðasta ári. Það eru um 85% af samanlagðri veltu allra lyfsala á listanum, sem inniheldur langflesta lyfsala á Íslandi. Þá nam hagnaður stærstu fimm lyfsalanna 1,2 milljörðum króna sem er 76% af samanlagðri veltu allra lyfsala.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði