Þó rekstur Arion banka hafi gengið vel á þessu ári þá var rekstrarárið í fyrra það versta frá endurreisn bankans og lækkaði hagnaður hans úr 7,8 milljörðum króna árið 2018 í 1,1 milljarð árið 2019.

Arðsemi eiginfjár var 0,6% og því engin furða að Benedikt Gíslason bankastjóri leggi áherslu á að bæta hana. Benedikt er í viðtali í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út á dögunum.

Það sem litaði helst rekstur Arion banka í fyrra var útlánatap og einnig varð tíu milljarða króna tap hjá Valitor, dótturfélagi bankans, sem er í söluferli. Bókfært virði kortafyrirtækisins lækkaði úr 16 milljörðum í 6,5 milljarða króna á síðasta ári.

„Hjá Valitor var á sínum tíma farið í metnaðarfulla útrás,“ segir Benedikt. „Fjárfest var í fyrirtækjum sem áttu að veita nýja tegund þjónustu sem kallast alrásarþjónusta eða omnichannel solution á ensku,“ segir Benedikt, en alrásarþjónusta er hugbúnaðarlausn sem í grófum dráttum sameinar þjónustu fyrir snjalltæki, netviðskipti og þjónustu við búðarborð.

„Okkur varð brátt ljóst að þetta var ekki að ganga upp að óbreyttu. Þá stóðum við frammi fyrir þeirri ákvörðun að annaðhvort halda áfram að fjárfesta í útrásinni með töluverðum tilkostnaði í þeirri von að það myndi skila sér síðar í tekjum eða grípa til annarra aðgerða. Sem betur fer gripum við til annarra aðgerða. Við seldum alrásarþjónustuna frá okkur og byrjuðum að endurskipuleggja reksturinn. Stuttu seinna fór allt á versta veg þegar heimsfaraldurinn skall á. Endurskipulagning Valitor hefur gengið mjög vel og gert það að verkum að félagið, sem hafði neikvæð áhrif á afkomu samstæðunnar svo um munaði, jafnvel um einn til tvo milljarða á fjórðungi, hefur ekki lengur slík áhrif. Þó að endurskipulagningunni sé ekki alveg lokið þá er hún langt komin.“

Áföll í lánasafni

Þegar Benedikt tók við um mitt síðasta ár hafði lánasafn bankans orðið fyrir áföllum. Wow air  varð gjaldþrota í lok mars 2019 og lýsti Arion banki 2,4 milljarða króna kröfu í þrotabúið. Um það bil hálfu ári áður, eða haustið 2018, hafði Arion banki tapað um tveimur milljörðum króna á falli Primera Air þar sem gjaldþrot félagsins hafði veruleg fjárhagsleg áhrif á Primera Travel Group, sem rak ferðaskrifstofur í Skandinavíu og á Íslandi. Bankinn tók síðar ferðaskrifstofurnar yfir, þá undir nafni TravelCo.

Auk þessa hefur Arion banki tapað verulegum fjármunum á kísílmálmverksmiðju United Silicon, sem varð gjaldþrota í janúar 2018. Eftir gjaldþrotið gerði bankinn 9,5 milljarða króna kröfu í þrotabúið. Bankinn tók yfir allar helstu eignir fyrirtækisins og í dag á Stakkberg, dótturfélag Arion banka, verksmiðjuna. Var virði hennar bókfært á 6,9 milljarða króna í mars 2019 en það hefur rýrnað mjög því samkvæmt ársreikningi síðasta árs var eignin metin á 2,7 milljarða. Endurbætt verksmiðja er nú í umhverfismati hjá Skipulagsstofnun.

„Það er ekkert launungarmál að við höfum tekið á okkur mikið tap vegna verksmiðjunnar. Þetta var skuldbinding sem nam um 1,5 prósentum af efnahagsreikningi bankans þegar mest lét en í dag er okkar markmið auðvitað að finna farsæla lausn. Við ætluðum aldrei að eiga þessa verksmiðju en nú þurfum við að reyna að hámarka virði hennar og ein af þeim leiðum er að kanna áframhaldandi rekstur. Það er   framtíðarmúsík því í dag er staðan sú að ekkert kísilver er starfandi á Íslandi og líklega um 30 prósent af framleiðslugetu í heiminum liggja niðri vegna óhagstæðra markaðsaðstæðna. Kísilverksmiðjan í Helguvík og ferðaskrifstofurnar eru úrlausnarefni fyrir bankann og okkar hlutverk er einfaldlega að koma þessum félögum sem fyrst í hendur aðila sem búa yfir sérþekkingu og fjárhagslegum styrk til að taka þau áfram.“

Viðtalið í heild má lesa í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .