Íslendingar áttu í verulegum og samfelldum viðskiptum við Sovétríkin frá árinu 1953 fram að falli þeirra árið 1991. Íslendingar fluttu freðfisk, síld, niðursuðuvörur, fatnað úr ull og málningu til Sovétríkjanna svo eitthvað sé nefnt. Íslendingar fengu í staðinn olíu, byggingarvörur og matvæli og síðan fóru sovéskar bifreiðar að streyma til landsins.

Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar sem kemur út í dag er fjallað ítarlega um viðskipti Íslendinga við Sovétríkin og viðskiptin við fyrrum ríki þeirra eftir fallið fram til dagsins í dag.

Þar er farið yfir hlutfall útflutnings til Sovétríkjanna á þessum árum, en þau voru stærsta viðskiptaríki Íslands um árabil, ekki síst vegna löndunarbanns í Bretlandi, sem sett var á vegna útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Ólafur Thors, Bjarni Ben og Björn Bjarna

Farið er yfir viðskipti ríkjanna tveggja 1946 og 1947 sem féllu alveg niður þar til samningurinn árið 1953 var gerður. Vitnað er í orð Ólafs Thors forsætisráðherra í tengslum við viðskiptin, útvarpsávarp Bjarna Benediktssonar sumarið 1953, ástæðu viðskiptanna að mati Björns Bjarnasonar fyrrum ráðherra og sérfræðings í utanríkismálum og rifjaðar upp umfjallanir Frjálsrar verslunar í gegnum árin.

Þar kemur til dæmis fram að árið 1979 var um helmingur framleiðslu málningarfyrirtækisins Hörpu seldur til Sovétríkjanna.

Aðsend grein frá sovéska sendiráðinu

Í aðsendri grein frá sovéska sendiráðinu árið 1968 var farið yfir viðskiptin frá sjónarhóli Rússana. En þar kristallast samningakarp þessara tæpu 40 ára sem rammasamningar voru í gildi. Aðalsöluvara Sovétmanna var olía en verðið ákvarðaðist á heimsmarkaði, þótt Íslendingar hafi fengið afsláttarkjör vegna magnsins. En stöðugar karp var um á hvaða verði fiskurinn var seldur.

Með því að kaupa frá Sovétríkjunum eru Íslendingar að tryggja sölu á íslenzkum útflutningsvörum til Sovétríkjanna. Sovétríkin eru einn stærsti kaupandi fisks og fiskiðnaðarvara frá Íslandi. Sovétríkin kaupa 30—32% af útflutningi Íslands á frystum fiskflökum, allt að 30% af freðfiski og yfir 50% af útflutningi landsins á niðursoðnum fiski. Hlutur Sovétríkjanna í kaupum á íslenzkri saltsíld hefur minnkað á undanförnum árum, þar sem íslenzkir útflytjendur hafa ekki talið sér fært að selja síldina fyrir það verð, sem sovézkir kaupendur hafa talið aðgengilegt.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Frjálsri verslun sem kom út í dag.