Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að samkeppni á markaði fyrirtækjalána hér á landi hafi verið mjög mikil undanfarin ár og í raun verið þannig að verðlagningin hafi verið orðin ósjálfbær. Þetta kemur fram í viðtali við Benedikt, sem birtist í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út á dögunum.

„Vegna mikillar samkeppni var bankinn farinn að verðleggja lánin þannig að þau drógu niður heildararðsemi,“ segir hann. „Ekki gleyma því að rekstrarárin 2014 og 2015 voru mjög góð fyrir allt bankakerfið. Eignasafnið sem kom inn þegar bankarnir voru endurreistir hækkaði verulega í virði og þá varð til mikill hagnaður í öllum bönkunum. Einhverra hluta vegna var ekkert af þessum hagnaði greitt út til eigendanna — það voru engar arðgreiðslur. Því reyna bankarnir að nýta þetta fé í sínum rekstri og fara að keppa um þessi stóru fyrirtækjaútlán, að ég vil meina á ósjálfbæran hátt til lengri tíma. Fyrir Arion banka að vera síðan með útlánatöpin, þá er hann kominn í þá stöðu að vera með hátt hlutfall af eigin fé bankans bundið í starfsemi, sem var ekki bara að skila lítilli arðsemi heldur neikvæðri arðsemi.“

Allt síðan Benedikt tók við hefur það verið yfirlýst stefna bankans að dreifa áhættu, draga úr samþjöppun og minnka lánasafn til fyrirtækja með það að markmiði að auka arðsemi og draga úr útlánatöpum. Á fyrri helmingi ársins færði bankinn lánasafnið niður um 1 prósent á ársgrundvelli. Spurður hvernig staðan sé í þessum efnum núna svarar Benedikt: „Okkar lánasafn endurspeglar nokkuð vel íslenska hagkerfið enda erfitt fyrir okkur að vera mjög frábrugðin því.“

Heimsfaraldurinn hefur haft misjafnlega mikil áhrif á fyrirtæki og ekki er á neinn hallað þegar fullyrt er að áhrifin hafi verið mest á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Spurður hvort bankinn sé með mikið af útlánum í þeim geira svarar Benedikt: „Um sjö prósent af okkar lánasafni eru til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Samkvæmt síðustu fjármálastöðugleikaskýrslu er bankinn í heildina með um 23 prósent af lánveitingum til ferðaþjónustu. Það eru þá aðrir með hin 77 prósentin, aðrir bankar og fjárfestar.

Af fenginni reynslu höfum við lagt áherslu á að dreifa betur úr áhættunni. Vera ekki með stór einstök lán inni á okkar efnahagsreikningi. Við viljum minnka flökt í afkomu og auðvitað bæta hana. Þessi áhersla hefur veitt okkur svigrúm til þess að lána meira til minni verkefna. Á síðustu ársfjórðungum hefur verið jákvæður lánavöxtur í slíkum verkefnum. Okkur hefur tekist ágætlega að snúa rekstrinum við eins og afkoman á þessu ári endurspeglar.“

Viðtalið í heild má lesa í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .